Dagsetning                       Tilvísun
2. mars 1994                            622/94

 

Virðisaukaskattur – afsláttarkort

Vísað er til bréfs yðar dags. 27. janúar sl. þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna notkunar á afsláttarkortum og þá hvort slík notkun gæti fallið undir 5. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í bréfinu segir m.a.:

„Um er að ræða fyrirtæki sem hefur með höndum verslunarrekstur og hefur í huga að taka í notkun afsláttarkort. Umrædd afsláttarkort eru þannig hugsuð að félagið mun sjálft gefa út viðskiptakort sem safna upp afsláttum og þeir aðilar sem versla í gegnum þessi kort vinni sér inn punkta sem byggjast á þeim upphæðum sem verslað er fyrir og safnast þessir punktar saman yfir ákveðinn tíma og þegar ákveðnum punktafjölda er náð öðlast viðskipavinurinn inneign sem hann getur síðan notað sem greiðslu í versluninni, jafnvel er möguleiki að greiða þurfi þessa inneign út með peningum. Í 5.tl. 7gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, segir að „til skattverðs teljist afslættir sem háðir eru skilyrðum sem ekki eru uppfyllt við afhendingu“. Í því tilfelli sem hér um ræðir er spurningin hvort ekki sé um að ræða „skilyrtan afslátt“ samkvæmt ákvæðum áður tilvitnaðra laga.“

Jafnframt er tekið fram í bréfinu að sá sem rétt eigi á afslætti samkvæmt framansögðu verði að eiga viðskipti við verslunina, hann verði að staðgreiða vöruna og framvísa viðskiptakortinu og enn fremur þurfi hann að safna upp ákveðinni upphæð inneignar til að fá ávísun á þá inneign til að geta nýtt sér afsláttinn. Enn fremur kemur fram að afslátturinn verði ekki að veruleika í bókhaldi félagsins fyrr en umrædd inneign (ávísun) sé innleyst.

Til svars erindinu þá verður að fallast á það með fyrirspyrjanda að hér sé um skilyrtan afslátt að ræða sbr. 5. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga. Afsláttur sem veittur er eftir afhendingu telst því til skattverðs, en heimilt er að draga hann frá við uppgjör á skattskyldri veltu ef hann er veittur aðila sem getur dregið virðisaukaskattinn frá sem innskatt í uppgjöri sínu, sbr. 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu þá er afsláttur sem veittur er eftir afhendingu vegna sölu til óskráðs aðila ekki frádráttarbær. Með vísan til þess sem að framan greinir og þess að umræddur afsláttur er veittur endanlegum neytendum er ekki heimilt að lækka skattskylda veltu um þá fjárhæð sem afslættinum nemur.

Bent skal á að ef afsláttarkort er notað með þeim hætti að við afhendingu vöru þá lækki söluverð sem nemur svokallaðri inneign þá ber einungis að telja almennt söluverð vörunnar mínus afslátt til skattskyldrar veltu enda er það sú fjárhæð sem kaupandi er krafinn um fyrir vöruna, þ.e. hér er um óskilyrtan staðgreiðsluafslátt að ræða.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.