Dagsetning Tilvísun
15. apríl 1994 624/94
Endurgreiðsla sveitarfélags á virðisaukaskatti
Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. ágúst 1993 þar sem álits ríkisskattstjóra er leitað á réttmæti synjunar tryggingarfélags á að greiða virðisaukaskatt af reikningum er sveitarfélag hefur krafist greiðslu af.
Í bréfi yðar kemur fram að húsnæði ákveðins fyrirtækis úti á landsbyggðinni hafi brunnið og af brunarústunum hafi stafað mikil hætta og óþægindi og hafi fyrirtækinu borið skylda til þess að hreinsa brunarústirnar en þeirri skyldu hafi ekki verið sinnt. Vegna þessa hafi hreppurinn látið hreinsa brunarústirnar á kostnað fyrirtækisins og kostnaðinum sem af hlaust verið lýst í brunabætur húseignarinnar. Það kemur fram að tryggingarfélag það er húseignin var tryggð hjá synji nú að greiða virðisaukaskattinn af reikningum þeim er lagðir hafa verið fram vegna hreinsunar brunarústanna. Fram kemur að tryggingarfélagið byggi synjun sína á lögum nr. 50/1988, virðisaukaskattslög og reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
Í 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila. Ekki verður talið að hreppurinn geti fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt 1. tl. 12. gr. reglugerðarinnar þar sem talað er um sorphreinsun, þar sem að ákvæðið hefur verið túlkað á þann hátt að einungis sé átt við hina eiginlegu sorphirðu s.s tæmingu ruslatunna og gáma og flutnings úrgangs á ruslahauga. Ekki verður heldur talið að 4. tl. 12. gr. reglugerðarinnar eigi við þar sem að 4.tl. hefur verið túlkaður svo að ákvæðið taki einungis til björgunarstarfa og öryggisgæslu meðan á náttúruhamförum og almannavörnum stendur eða í órofa tengslum við þær, þannig að síðar til kominn kostnaður vegna viðgerða og lagfæringa vegna tjóns sem orðið hefur komi ekki til álita í þessu sambandi.
Af framangreindu er það ljóst að hreppurinn á ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af reikningum er þeir greiddu vegna hreinsunar brunarústanna á grundvelli 12. gr. reglugerðarinnar né öðrum greinum reglugerðarinnar. Aftur á móti hefði viðkomandi fyrirtæki getað talið til innskatts þann virðisaukaskatt er það hefði
greitt vegna hreinsunarinnar eftir almennum reglum virðisaukaskattslaganna. Einnig bar hreppnum að greiða virðisaukaskatt af vinnu starfsmanna sinna er unnu að hreinsun brunarústanna enda er þarna um vinnu að ræða sem er í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Jafnframt hefði hreppurinn átt að innskatta og útskatta aðkeypta þjónustu vegna hreinsunarinnar.
Af framansögðu er ljóst að hreppurinn getur á engan hátt fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir