Dagsetning Tilvísun
4. maí 1994 627/94
Virðisaukaskattur af sölu lánastofnana á lausafjármunum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. október 1992, þar sem óskað er eftir upplýsingum hvernig bankinn skuli fara með virðisaukaskatt af sölu á lausafjármunum sem bankinn eignast, ýmist með kaupum á nauðungaruppboðum eða á annan hátt, og eru seldar aftur eða leigðar út.
Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisauakaskattslaga nær skattskylda til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé sérstaklega undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Ef að bankinn selur rekstrarfjármuni sína þá ber ekki að útskatta þá þar sem að bankinn er undanþeginn virðisaukaskatti samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Það er meginregla að skýra beri skattaundanþágur þröngt, þ.e. að slík ákvæði eru ekki látin ná til fleiri tilvika en tvímælalaust felast í þeim. Það er því aðeins hin eiginlega bankastarfsemi eða fyllilega sambærileg starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti,_ þ.e. ávöxtun fjár viðskiptamanna og sérfræðiráðgjöf á því sviði.
Önnur þjónusta eða starfsemi sem banki rekur fer því eftir meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og er skattskyld. Þar á meðal er sala og leiga á lausafjármunum sem bankinn hefur eignast, hvort sem bankinn kaupir viðkomandi hlut á nauðungaruppboði eða eignast hann á annan hátt. Það sem meginmáli skiptir er hvort um er að ræða lausafé sem ekki getur talist vera rekstrarfjármunir til nota í hinni undanþegnu starfsemi bankans. Ber bankanum því að tilkynna um starfsemi sína eða atvinnurekstur til skráningar hjá skattstjóra. Skattstjóri gefur síðan út staðfestingu að skráning hafi átt sér stað og úthlutar virðisaukaskattsnúmeri. Bankanum ber við skil á virðisaukaskatti að nota það eyðublað sem honum berst áritað frá skattyfirvöldum og færa þar inn m.a. útskatt og innskatt.
Á sama hátt getur bankinn talið til innskatts virðisaukaskatt sem hann greiðir við kaup á þessu lausafé. Hins vegar skiptir það ekki máli um skattskylduna ef bankinn af einhverjum orsökum getur ekki talið virðisaukaskatt af innkaupunum til innskatts, t.d. af því að um var að ræða sölu án virðisaukaskatts eða af því að eign var á sínum tíma keypt án söluskatts á nauðungaruppboði, bankanum ber engu að síður að útskatta sölu sína eða útleigu á hlutnum.
Beðist er velvirðingar á því hversu seint svar við fyrirspurn yðar berst.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir