Dagsetning                       Tilvísun
17. maí 1994                            629/94

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði – réttur tryggingafélags til að sækja um endurgreiðslu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. apríl 1994, þar sem farið er fram á að tryggingarfélag geti milliliðalaust fengið endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna viðgerða á íbúðum í þeim tilvikum sem tryggingarfélag er greiðandi reiknings.

Í bréfinu segir:

„Þegar bótaskylt tjón verður á húseign er það algengast, að félagið greiði iðnaðarmönnum reikning þeirra vegna endurbóta á húseigninni og sjái um að fá endurgreiddan virðisaukaskatt. Þessi aðferð er liður í þjónustu félagsins við viðskiptavini sína.

Fram að þessu hefur verið útvegað sérstakt umboð frá húseiganda til að senda með beiðni félagsins um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þessi aðferð er fremur þung í vöfum og tefur fyrir endurgreiðslum og þar með endanlegu tjónsuppgjöri.

Félagið telur að líta beri svo á, að við það að greiða virðisaukaskatt ásamt tjónabótum (reikningur iðnaðarmanna), öðlist félagið sjálfkrafa rétt húseiganda til endurgreiðslu án þess að til komi sérstakt umboð. Rök þau sem liggja til grundvallar kröfu um umboð samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 449/1990 þegar um er að ræða sameiginlegan kostnað eins eða fleiri eiga ekki við um beiðni vátryggingarfélags sem hefur greitt kostnað við endurbætur.

Með vísan til ofanritaðs er óskað eftir afstöðu Ríkisskattstjóra til beiðni félagsins um að virðisaukaskattur verði endurgreiddur því, án þess að fylgja þurfi sérstakt umboð húseiganda.“

Til svars bréfinu skal tekið fram að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, þá skal endurgreiða eingöngu byggjendum eða eigendum íbúðarhúsnæðis þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað. Með vísan til þessa er endurgreiðsla ekki heimil gagnvart öðrum en þeim sem sérstaklega eru taldir upp í reglugerðinni.

Tekið skal fram sérstaklega að 6. gr. reglugerðarinnar getur ekki átt við í umræddu tilviki.

Þess skal getið að eigandi íbúðarhúsnæðis getur ávallt veitt öðrum aðila skriflegt umboð til að sækja um endurgreiðslu samkvæmt almennum reglum samningaréttarins, sbr. lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í bréfinu kemur fram að tryggingafélagið hafi sótt um endurgreiðslur á grundvelli umboða frá húseigendum og er slíkt heimilt að áliti ríkisskattstjóra.

Með vísan til þess sem að framan greinir er engin heimild í umræddri reglugerð til endurgreiðslu á virðisaukaskatti til annarra en byggjenda, eigenda eða framleiðenda íbúðarhúsnæðis.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir