Dagsetning                       Tilvísun
20. maí 1994                            632/94

 

Virðisaukaskattur af ýmis konar þjónustu fyrir aldraða.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. apríl sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af hárgreiðslu, hársnyrtingu og þvotti fyrir aldraða og af fæði starfsfólks.

Til svars erindinu þá skal tekið fram að bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum þeirra ber að innheimta virðisaukaskatt af vörum eða skattskyldri þjónustu sem seld er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með vísan til framanritaðs ber félagsmálastofnun að innheimta virðisaukaskatt af hárgreiðslu/hársnyrtingu sem þeir selja og skiptir ekki máli hverjum þeir selja eða afhenda þjónustuna.

Í fyrirspurn yðar er einnig óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af þvotti sem þveginn er á dvalarheimilum án endurgjalds. Samkvæmt I. kafla reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana (þ.m.t. dvalar- og hjúkrunarheimili), ber óskattskyldum aðilum að innheimta virðisaukaskatt af eigin þjónustu sinni, þ.m.t. af starfsemi þvottahúsa. Skattverð fer svo eftir því hvort starfsemin fer fram í þjónustudeild eða ekki og vísast að því leyti til framangreindrar reglugerðar.

Í þriðja lagi er spurt um hvort og þá hvernig reikna beri út virðisaukaskatt af fæði starfsfólks á dvalarheimilum. Starfsemi mötuneyta er virðisaukaskattsskyld. Það fer svo eftir því með hvaða hætti mötuneytin eru rekin af hvaða þáttum virðisaukaskattur reiknast. Til skýringar á því er meðfylgjandi bréfi þessu „Leiðbeiningar um mötuneyti“. Tekið skal fram að innheimta ber 14% skatt af matarsölu í starfsmannamötuneytum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir