Dagsetning Tilvísun
25. maí 1994 633/94
Virðisaukaskattur – Sala á þjónustu til banka innan herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. maí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á símaþjónustu til erlends banka sem er staðsettur innan herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Samkvæmt 48. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sala úr landi. Sala til annarra en varnarliðsins, þótt þeir reki starfsemi innan varnarsvæðisins, fellur ekki hér undir.
Með vísan til framanritaðs er sala á símaþjónustu til erlends banka sem staðsettur er innan varnarsvæðisins virðisaukaskattsskyld, enda er bankinn ekki í eigu varnarliðsins.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir