Dagsetning                       Tilvísun
31. des. 1992                            639/92

 

Virðisaukaskattur – stefnumótun í ferðaþjónustu.

Með bréfum yðar, dags. 21. júní 1991 og 21. janúar 1992, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á greiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptar vinnu við stefnumótun í ferðaþjónustu á V.

Í bréfi yðar er markmiði starfsemi þessarar lýst á svofelldan hátt:

„Með verkefninu er ætlunin að móta sameiginlega stefnu um uppbyggingu ferðaþjónustu á V. Niðurstöður verkefnisins eiga þannig að nýtast öllum þeim er starfa að ferðaþjónustu í fjórðungnum.“

Fram kemur í bréfi yðar að þeir sem standi að þessu verkefni séu F, A og I á V. Einnig kemur fram í bréfi yðar að leitað hafi verið eftir ráðgjöf Iðntæknistofnunar við vinnslu á verkefninu og að undirritaður hafi verið verksamningur við þá stofnun.

Einnig segir í bréfi yðar að:

„F eru samtök hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á V. Því hefur verið litið svo á að þar sem niðurstöður verkefnisins eiga að nýtast öllum er tengjast ferðaþjónustu á V sé eðlilegt að hinn eiginlegi verkaupi séu A.“

Í fylgigögnum með bréfi yðar segir svo í 2. gr. laga A:

„Hlutverk samtakanna er að vinna að hagsmunamálum ferðaþjónustu, stuðla að aukinni þjónustustarfsemi við ferðamenn og skipuleggja samstarf aðila inna samtakanna, m.a. með útgáfustarfsemi.“

Sem svar við fyrirspurn þessari er bent á að öll sala í atvinnuskyni á þjónustu, hverju nafni sem nefnist er virðisaukaskattsskyld, nema starfsemin sé sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (vskl.). Milliganga um ferðaþjónustu er undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan hefur þá þýðingu að fyrirtækið innheimtir ekki virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þessa þjónustu, en það hefur hins vegar ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum vegna starfseminnar.

Að áliti ríkisskattstjóra telst starfsemi sú sem lýst er í bréfi yðar vera milliganga um ferðaþjónustu og er því undanþegin virðisaukaskatti og er því ekki heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.

Ennfremur skal bent á að sú vinna og þjónusta Iðntæknistofnunar og B í þessu tilviki fellur undir ákvæði 2. gr. vskl. og ber því að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.