Dagsetning                       Tilvísun
19. sept. 1994                            642/94

 

Starfsemi innlends aðila innan varnarsvæðisins

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. júlí sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu þegar kaupandi er með starfsstöð innan varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli.

Í bréfinu kemur fram að rekstraraðilinn sé að byggja þjónustumiðstöð fyrir flugvélar og ferðamenn innan varnarsvæðisins. Jafnframt kemur fram að í húsinu verði biðsalur fyrir farþega, aðstaða fyrir flugfélög og ferðaþjónustu ásamt veitingum svo og viðhalds-þjónusta fyrir flugvélar ásamt eldsneytissölu.

Í bréfinu er óskað eftir því að fá úr því skorið hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á vörum og þjónustu þegar selt er til aðila sem er með starfsstöð innan varnarsvæðisins.

Til svars bréfinu skal tekið fram að varnarsvæðið er ekki frísvæði hvað varðar skatta og gjöld. Þess ber þó að geta að sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli telst sala úr landi, sbr. 48. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Samkvæmt framansögðu skiptir því ekki máli varðandi virðisaukaskatt hvort starfsstaður rekstraraðila er innan eða utan varnarsvæðisins.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir