Dagsetning Tilvísun
7. október 1994 645/94
Virðisaukaskattur – 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993, Útlagður kostnaður.
Vísað er til bréfs yðar dags. 23. febrúar 1994, þar sem álits ríkisskattstjóra er leitað á túlkun 21.gr. reglugerðar nr. 50/1993 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskatts-
skyldra aðila, með breytingum skv. reglugerð nr. 539/1993.
Fram kemur í bréfi yðar dæmi, sem hér skal rakið:
„Þjónustuaðili A hf. fer út á land til að vinna fyrir verksmiðjuna B hf. Starfsmaður A hf. leggur út fyrir ýmsum ferðakostnaði, sem er stílaður, ýmist á starfsmanninn eða A hf. Síðan rukkar A hf. B hf. um þessa ferðakostnaðarreikninga án álags. Getur A hf. gert reikning, án nokkurs virðisaukaskatts, fyrir útlögðum kostnaði stílaðan að B. hf. og B. hf. gjaldfært hjá sér sem kostnað og dregið viðeigandi innskatt skv. meðfylgjandi frumritum af kostnaðarreikningum frá sínum útskatti?“
Samkvæmt 21. gr. áður tilvitnaðrar reglugerðar skal sölureikningur vegna kostnaðarins vera skráður á nafn kaupanda, sem fær í hendur frumrit sölureikningsins ásamt uppgjöri.
Ef um útlagðan kostnað er að ræða gefur seljandi ekki út sölureikning vegna kostnaðarins, en kaupandi þjónustu fær uppgjör ásamt frumriti sölureikninga, sem stílaðir eru á hann. Ef sölureikningar vegna útlagðs kostnaðar eru ekki stílaðir á kaupanda, tilheyra þeir bókhaldi seljanda, sem inn og útskattar þá hjá sér, þ.e. kostnaðurinn er þá hluti skattverðs. Seljandi gefur út sölureikning vegna þjónustunnar ásamt þeim kostnaði, sem hann krefur kaupanda sérstaklega um, skv. 2. tl. 7. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir