Dagsetning                       Tilvísun
11.okt. 1994                            646/94

 

Virðisaukaskattur af förgun skipa

Vísað er til bréfs yðar dags. 28. september 1994 þar sem spurst er fyrir um, hvort verktaki sem tekur að sér að farga skipi, eigi að innheimta virðisaukaskatt af því verki.

Í bréfi yðar er vísað til 7. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og spurst fyrir um, hvort ekki megi fella þetta verk undir þá grein.

7. tl. 1. mgr. 12. gr. er svohljóðandi: „Skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.“

Ríkisskattstjóri telur engin lagarök fyrir því að innheimta ekki virðisaukaskatt af þessu verki. Áður tilvitnuð lagagrein tekur til viðgerðar- og viðhaldsvinnu um borð í skipum þ.e.a.s. verk sem miða að því að gera skipið betra og/eða verðmætara. Það að farga skipi getur ekki fallið undir þá skilgreiningu.

Samkvæmt framansögðu ber því að innheimta virðisaukaskatt af umræddri starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir