Dagsetning Tilvísun
27. október 1994 648/94
Virðisaukaskattur af ræstingu, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989
Vísað er til bréfs yðar dags. 30. nóv. 1992, þar sem spurst er fyrir um hvort óskattskyldir aðilar, sem reka ákveðinn hluta starfsemi sinnar sem sameiginlega rekstrareiningu eða rekstrarsjóð t.d. ræstingu, megi líta á sinn hlut í einingunni sem sérstakan, þegar ákvörðun um skattskyldu er tekin, sbr. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.
Eftirtalin starfsemi er skattskyld samkvæmt fyrrgreindri reglugerð að svo miklu leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki:
- Smíði, viðhald og viðgerðir véla, tækja, húsgagna og áhalda í verksmiðju, verkstæði eða starfsstöð.
- Rekstur þvottahúss, prentstofu og mötuneytis.
- Ræsting, enda sé skattverð ákvarðað skv. 2. tl. 3. gr. 400.000 kr. (Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingavísitölu. Frá 1. janúar 1994 er hún 763.700 kr.)
- Þjónusta þar sem krafist er iðnmenntunar.
- Þjónusta verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra stétta er almennt þjóna atvinnulífinu, önnur en almenn skrifstofuþjónusta.
Samkvæmt upptalningu í bréfi yðar eru laun ræstingarfólks það eina sem fellur undir nefnda reglugerð af sameiginlegum kostnaðarliðum aðila.
Í nefndu tilviki er það álit ríkisskattstjóra að skattverð skv. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. framangreindrar reglugerðar sé sá hluti kostnaðar sem rekstraraðili greiðir eða ber að greiða af sameiginlegum kostnaði við ræstingu.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir