Dagsetning Tilvísun
15. nóv. 1994 652/94
Virðisaukaskattur af útleigu bifreiðastæða.
Vísað er til bréfs ríkisskattstjóra dags 8. nóvember 1993 (tilvísun 569/93) þar sem svarað er fyrirspurn um hvort útleiga bifreiðastæða innan- og utanhúss sé virðisaukaskattsskyld.
Í fyrrgreindu svarbréfi er undanþáguákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga túlkað á þann veg að ákvæðið taki ekki til útleigu bifreiðastæða í bifreiðageymsluhúsi. Í framangreindu svarbréfi er jafnframt sagt að undanþágan (útleiga bifreiðastæða, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr.) taki þannig ekki til þess þegar viðskipti fela í sér þjónustu af öðru tagi, t.d. sölu á aðstöðu til viðgerða eða geymslu á bifreið. Samkvæmt framansögðu var sú starfsemi sem fyrirspurnin varðaði talin fela í sér aðra þjónustu samfara útleigu bifreiðastæða og því var dregin sú ályktun að hér væri um virðisaukaskattsskylda starfsemi að ræða.
Í framhaldi af þessu kom upp ágreiningur um framangreinda túlkun á undanþáguákvæðinu sem leiddi til þess að ríkisskattstjóri sendi fyrirspurnir til tveggja rekstraraðila sem hafa með höndum útleigu bifreiðastæða. Spurt var um hvort starfsemin fæli í sér aðra þjónustu samfara útleigu bifreiðastæða. Í svörum við fyrirspurnunum kemur m.a. fram að í endurgjaldi fyrir bifreiðastæði sé ekki innifalin önnur þjónusta en geymsla bifreiðar og að ef rekstraraðilarnir taki að sér flutning á bifreið eða bón og þvott á bifreið þá sé tekið sérstakt gjald fyrir slíka þjónustu. Jafnframt kemur fram að á bifreiðastæðunum sé ekki aðstaða fyrir þrif eða viðgerðir á bifreiðum.
Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum er fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða undanþegin virðisaukaskatti. Með lögum nr. 106/1990, um breyting á lögum um virðisaukaskatt, var útleigu bifreiða-stæða bætt inn í undanþáguákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. Í greinargerð með frumvarpinu kemur eftirfarandi fram: “Í framkvæmd hefur leiga tjaldstæða og bifreiðastæða einnig verið talin falla hér undir. Lagt er til að þessi starfsemi verði beinlínis nefnd, til nánari skýringar og fyllingar á þessari undanþágu.” Að öðru leyti er ákvæðið ekki skýrt frekar í greinargerð.
Að öllu framansögðu virtu verður ákvæðið ekki túlkað á annan veg en eftir skýru orðalagi þess, þ.e. að útleiga bifreiðastæða einna og sér sé undanþegin virðisaukaskatti.
Það skiptir því ekki máli varðandi virðisaukaskattsskyldu hvort útleiga bifreiðastæða fer fram innan- eða utanhúss eða hvort um er að ræða útleigu til skemmri eða lengri tíma enda tengist útleigan ekki annarri þjónustusölu. Ef endurgjald fyrir bifreiðastæði er ekki jafnframt endurgjald fyrir annars konar þjónustu, þ.e. einungis er um útleigu á bifreiðastæði að ræða, þá ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af útleigunni.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.