Dagsetning                       Tilvísun
18. nóv. 1994                            653/94

 

Virðisaukaskattur v/lána á vörulager

Vísað er til bréfs yðar dags 27. apríl 1993 og ítrekunarbréfs dags. 8. sept. 1993, þar sem óskað er eftir áliti embættisins á gjaldskyldu og skilum á virðisaukaskatti í þeim tilfellum þegar heildsölufyrirtæki eða framleiðendur lána vörulagera til verslana án þess um beina sölu sé að ræða. Versluninni er síðan gefin full heimild til að að selja af þessum vörulagerum og í lok tímabils er sá hluti vörulagersins sem verslunin hefur selt skuldfærð á viðkomandi verslun af heildsölu/framleiðanda.

Í 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram svonefnd afhendingarregla, en þar segir:

„Skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr., telst heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu.

Ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu.“

Ekki skiptir máli hvernig eða hvenær hið selda er greitt. Jafnvel þótt seljandi hafi lánað allt söluverðið telst salan til skattskyldrar veltu þess tímabils þegar afhending fer fram.

Samkvæmt framansögðu ber seljanda að gefa út reikning þegar afhending vöru fer fram. Þegar vörum er skilað ber síðan að gefa út kreditreikning sbr. 1. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988.

Beðist er velvirðingar á því, hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir