Dagsetning                       Tilvísun
22. des. 1994                            660/94

 

Vísað er til bréfs ráðuneytisins, dags. 7. nóv. sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvað teljist skemmtibátur í skilningi 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfinu fylgir fyrirspurn ríkistollstjóra um það hvernig skýra beri hugtakið skemmtibátur eins og það kemur fyrir í 6. tölul 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í framangreindri fyrirspurn eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:

“1. Hvernig ber að túlka orðið “skemmtibátur” eins og það kemur fyrir í áðurtilvitnaðri grein virðisaukaskattslaga?

2. Hefur það áhrif á gjaldskyldu við innflutning, hvort nota eigi í atvinnuskyni bát, sem fellur undir rétt túlkað hugtakið “skemmtibátur”?

3. Hefur yfirlýsing (áritun) Siglingamálstofnunar ríkisins um viðurkenningu á tilteknum öryggisbúnaði sem krafist er vegna notkunar slíks báts í atvinnuskyni, úrslitaáhrif um gjaldskyldu eða gjaldfrelsi innflytjanda hans á virðisaukaskatti við innflutning (tollafgreiðslu)?”

Í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga segir um 6. tölul. 12. gr.:

“Samkvæmt 6. tölul. er sala og útleiga loftfara og skipa, annarra en einkaloftfara og skemmtibáta, undanþegin skattskyldri veltu. Þó að sérreglu þessari væri ekki fyrir að fara yrði engin uppsöfnun virðisaukaskatts í fjárfestingu af þessu tagi þar eð draga mætti hann frá sem innskatt. Ákvæðið kemur hins vegar í veg fyrir fjárbindingu um langan eða skamman tíma vegna skattsins sem getur verið mjög kostnaðarsöm þar sem hér er oft á tíðum um verulega fjárfestingu að ræða. Sambærilegar reglur gilda um sölu á þessum vörum í nágrannalöndunum. Hliðstætt undanþáguákvæði er í gildandi söluskattslöggjöf og hefur upptaka virðisaukaskattsins því enga breytingu í för með sér að þessu leyti.”

Í 1. gr. reglugerðar nr. 432/1986, um söluskatt af bátum segir að bátar sem eru 6 metrar að lengd eða stærri skulu undanþegnir söluskatti enda beri bygging þeirra, fyrirkomulag og útbúnaður með sér að þeir séu byggðir til nota í atvinnuskyni og uppfylli skilyrði Siglingamálastofnunar ríkisins um slíka skráningu. Jafnframt segir að af skemmtibátum skuli ætíð greiða söluskatt. Í 5. mgr. 2. gr. sömu reglugerðar segir að leiki vafi á því hvort bátur sé ætlaður til nota í atvinnuskyni ber að innheimta söluskatt af honum en hann verði þó endurgreiddur ef sannað þykir að báturinn sé notaður sem atvinnutæki.

Með vísan til framanritaðs og meðfylgjandi bréfs fjármálaráðuneytisins dags. 17. mars 1980 þykir ljóst að orðið skemmtibátur á við þá báta sem eru ekki notaðir sem atvinnutæki.

Ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 er svohljóðandi:

“Sala og útleiga loftfara og skipa. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.”

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna skal ekki greiða virðisaukaskatt við innflutning vöru sem er undanþegin skattskyldri veltu skv. 6. tölul. 12. gr.

Ef einhver vafi leikur á því til hverra nota bátur er keyptur skal seljandi krefjast þess af kaupanda að hann staðfesti með yfirlýsingu sinni og áritun á afrit reiknings um að báturinn sé ekki keyptur til einkanota. Telja verður að sala báta/skipa til björgunarsveita og hliðstæðra aðila falli einnig undir ákvæðið enda eru slíkir bátar/skip ekki keyptir til einkanota þrátt fyrir að ekki sé um að ræða atvinnutæki í þrengstu merkingu þess orðs.

Við tollafgreiðslu á innfluttum bátum skal leggja fram staðfestingu frá Siglingamálstofnun ríkisins um stærð og gerð bátanna. Leiki vafi á því hvort bátur sé ætlaður til nota í atvinnuskyni eða það liggur fyrir að ekki er um að ræða fiskiskip, farþegaferju, björgunarbát, varðskip o.s.frv., þá ber jafnframt að fá staðfestingu innflytjanda á tollskýrslu að bátur/skip sé ekki fluttur inn til einkanota. Áréttað skal að undanþága 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 nær ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd.

Þegar vafi er um ætluð not á skipi/báti er rétt að krefja innflytjanda um staðfest skattframtal næstliðins árs.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir