Dagsetning                       Tilvísun
13. feb. 1995                            665/95

 

Hlífðarfatnaður – virðisaukaskattur – tekjuskattur.

Vísað er til bréfs yðar dags. 29. des. 1994 þar sem óskað er álits á skattalegri meðferð varðandi hlífðarfatnað sem vinnuveitendur leggja starfsmönnum til í fiskvinnslufyrirtækjum.

Vísað er til bréfs ríkisskattstjóra dags. 14. júlí 1992 þar sem heimiluð var sérstök skattaleg meðferð vegna greiðslna inn á hlífðarfatareikning starfsmanna. Í bréfi yðar kemur fram að sú aðferð sem þar var lýst hafi skapað vandamál í launabókhaldi fiskvinnslustöðva.

Í bréfi yðar kemur einnig fram að framkvæmd sumra fiskvinnslustöðva sé með þeim hætti að þessar greiðslur eru tekjufærðar á launþega og staðgreiðslu haldið eftir en á móti hafa launþegar verið skuldfærðir fyrir úttektum sínum án þess að virðisaukaskattur hafi verið innheimtur af þeim.

Af bréfi yðar má ráða að vegna breyttrar meðferðar á umræddum greiðslum í launabókhaldi sé ekki ljóst hvort halda megi umræddum greiðslum utan skattlagningar í tekjuskatti að því marki sem þær hafa verið skuldfærðar hjá launþegum. Jafnframt er spurt hvort telja megi virðisaukaskatt vegna kaupa fiskvinnslustöðva á hlífðarfatnaðnum til innskatts í tilvikum sem þessum.

Til svars erindi yðar skal tekið fram að með framangreindri meðferð á umræddum greiðslum verður ekki séð að heimilt sé að halda þeim utan skattlagningar í tekjuskatti enda ekki haldið sérstaklega utan um þær á hlífðarfatareikningi, sbr. liður 8.2.2. í kjarasamningi. Enn fremur virðist með þessum hætti vera um virðisaukaskattsskylda sölustarfsemi á hlífðarfatnaði að ræða og ber því að innheimta virðisaukaskatt við afhendingu fatnaðarins til launþega.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.

Friðgeir Sigurðsson.