Dagsetning                       Tilvísun
19. feb. 1990                                 20/90

 

Virðisaukaskattur – skattverð í afborgunarviðskiptum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. des. sl., þar sem spurt er (a) hvort innheimta beri virðisaukaskatt af svonefndum lokaliðum í afborgunarviðskiptum, þ.e. lántöku- og stimpilgjöldum, svo og þóknun vegna innheimtukostnaðar, og (b) hvers beri að gæta í sambandi við vexti í afborgunarviðskiptum með hliðsjón af ákvæði 2. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, þar sem segir „… enda sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni“.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Fram kemur í 7. gr. laga nr. 50/1988 að skattverð miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Í 2. mgr. greinarinnar er talinn upp – þó ekki tæmandi – ýmiss kostnaður sem telst til skattverðs. Almennt leiðir af þessum ákvæðum, einkum 2. tölul. 2. mgr., að telja ber greiðslur sem seljandi krefur kaupanda um sem skilyrði fyrir afborgunarsölu, aðrar en eiginlega vexti, til skattverðs.

Dæmi um kostnað sem telst til skattverðs samkvæmt þessum reglum er lántökukostnaður sem seljandi krefur um vegna væntanlegra þjónustugjalda bankastofnunar o.fl. Sama gildir um innheimtuþóknun sem rennur til seljanda vegna ósérgreinds kostnaðar hans við lánssöluna.

Að áliti ríkisskattstjóra er heimilt að halda stimpilgjaldi, sbr. lög nr. 36/1978, fyrir utan skattverð sem útlögðum kostnaði. Skilyrði er að kaupandi innheimti það af seljanda án nokkurs álags eða þóknunar, en í þessu tilviki er ekki skilyrði að kaupandi fái frumrit greiðsluskjals vegna stimpilgjalds í hendur.

II.

Í 6. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988 segir að vextir og verðbætur, sem hvort tveggja er reiknað við sölu með afborgunarskilmálum, teljast ekki með í skattverði, enda sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni. Verðbætur sem falla til fram að afhendingu vöru eða þjónustu teljast hins vegar til skattverðs.

Af ákvæðinu leiðir – sbr. og undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 – að halda má utan skattverðs vöxtum og verðbótum sem hvort tveggja er reiknað við greiðslu einstakra afborgana eftir því sem þær falla í gjalddaga. Ákvæðið tekur bæði til almennra vaxta og dráttarvaxta.

Að mati ríkisskattstjóra verður að skýra tilvitnað ákvæði svo að eingöngu sé átt við greiðslur vegna raunverulegs skuldarsambands aðila. Skilyrði ákvæðisins um sérstaka tilgreiningu vaxta- og verðbóta hverju sinni þykir bera að skilja þannig að fram komi fram gagnvart greiðanda hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé af einstökum afborgunum.

Samkvæmt framangreindu verða eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt til að heimilt sé að halda vöxtum og verðbótum fyrir utan skattverð í afborgunarviðskiptum:

a) Vextir og verðbætur reiknist aðeins af þeim hluta kaupverðs sem í skuld er hverju sinni og falli niður séu eftirstöðvar skuldarinnar greiddar upp, og

b) fram komi á einstökum greiðslukvittunum eða í kaupsamningi (þ.m.t. viðauka hans, svo sem vaxtatöflu) hversu vaxta- og verðbótagreiðsla sé stór hluti einstakra heildarafborgana, annaðhvort þannig að hlutfall vaxta sé tilgreint af einstökum afborgunum eða tilgreint hver fjárhæð vaxta og verðbóta sé hverju sinni.

Til dæmis um aðferðir við útreikning vaxta sem geta að mati ríkisskattstjóra talist fullnægja ofangreindum skilyrðum má nefna þessar:

  • Föstum vöxtum er bætt við söluverð hlutar ósundurliðað. Í heildarverð þannig reiknað er síðan deilt með fjölda afborgana og fæst þá út mánaðarleg afborgun. Vextir eru reiknaðir í samræmi við vaxtatöflu sem gefin er út af kreditkortafyrirtæki eða búin til af seljanda. Heimilt er að halda vöxtum sem reiknaðir eru með þessum hætti fyrir utan skattverð ef (a) kaupandi fær vaxtatöfluna í hendur sem hluta af kaupsamningi og (b) vaxtataflan sýni hvernig vaxtagreiðslurnar skiptast á einstakar afborganir, þ.e. hver hlutur vaxta sé af afborgunum hverju sinni.

*          Heildarverð samanstendur af söluverði og kostnaði vegna lánssölu. Í það er síðan deilt með fjölda afborgana og fæst þá út mánaðarleg afborgun. Vextir eru breytilegir og samtals fjárhæð þeirra því ekki þekkt við gerð kaupsamnings. Þeir eru reiknaðir út af kreditkortafyrirtæki og skuldfærðir mánaðarlega á viðskiptayfirlit hans í einni fjárhæð ásamt mánaðarlegri afborgun. Heimilt er að halda vöxtunum fyrir utan skattverð ef kaupanda er reglulega gerð grein fyrir hver hlutur vaxta sé af einstökum afborgunum.

*          Kaupandi gefur út skuldabréf vegna eftirstöðva kaupverðs. Vextir (breytilegir) eru reiknaðir mánaðarlega af innheimtuaðila, banka eða sparisjóði, sem sendir kaupanda tilkynningu um greiðslur þar sem fram kemur sundurliðað afborgun annars vegar og vextir hins vegar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.