Dagsetning Tilvísun
24. apríl 1995 678/95
Viðskipti íslenskra aðila með fisk utan íslenskrar efnahagslögsögu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. apríl sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af sölu fiskafla utan íslenskrar efnahagslögsögu þegar bæði kaupandi og seljandi eru íslenskir aðilar.
Í bréfi yðar segir m.a.:
“Íslenskur aðili, hlutafélag skrásett á Íslandi, hyggst kaupa fisk af íslenskum togurum og selja hann aftur til erlends verksmiðjuskips. Afhending aflans um borð í verksmiðjuskipið fer fram utan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar.”
Síðan er spurt hvort innheimta beri virðisaukaskatt við sölu aflans til íslenska kaupandans, hvort innskattsfrádráttur skerðist ef togarinn aflar einungis fyrir hið erlenda skip og hvaða skilyrði söluskjöl beri að uppfylla svo salan sé undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er spurt hvort það breyti einhverju ef verksmiðjuskipið væri gert út af íslensku hlutafélagi.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Að áliti ríkisskattstjóra ber því að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeim viðskiptum sem fara fram innan lögsögu íslenska ríkisins, þ.e. innan 12 mílna landhelgi sbr. 1.gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar sem umrædd viðskipti fara fram utan lögsögu íslenska ríkisins teljast þau ekki til viðskipta innan lands.
Af framansögðu þykir því rétt að fara eins að með umrædda sölu og með afla sem siglt er með til annarra landa, þ.e. telja ber sölu/afhendingu á aflanum til undanþeginnar veltu eins og útflutning enda þótt kaupandi sé íslenskur rekstraraðili.
Um er að ræða afhendingu/sölu sem er ekki tollafgreidd úr landi heldur fer fram utan lögsögu tollyfirvalda og því eru ekki gefnar út útflutningsskýrslur vegna afhendingarinnar. Almenna reglan er sú að til sönnunar því að um útflutning sé að ræða, og því sölu sem er undanþegin skattskyldri veltu, er að seljandi hafi í bókhaldi sínu útflutningsskýrslu eða önnur útflutningsskjöl. Þar sem salan/afhendingin fer ekki fram innan tollsvæðis í þessu tilviki er það álit ríkisskattstjóra að auk skilyrða um form og efni sölureikninga skv. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, skuli sérstaklega geta afhendingarstaðar og afhendingartíma á sölureikningi.
Hvað varðar heimild til innskattsfrádráttar vegna aðfanga rekstraraðila þá gilda almennar reglur virðisaukaskattslaga enda sé um að ræða aðila sem eru með virðisaukaskattsskyldan rekstur og starfsstöð hér á landi þó að umrædd viðskipti fari ekki fram innan lands.
Að lokum skal það tekið fram að ekki skiptir máli í þessu sambandi hver rekur umrætt verksmiðjuskip.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.