Dagsetning                       Tilvísun
5. maí 1995                            682/95

 

Virðisaukaskattur – almennt gangverð, endurgreiðsla v/ sorphreinsunar, o.fl.

Vísað er til fundar sem haldinn var með fulltrúum sveitarfélaga og fulltrúa frá fjármála-ráðuneytinu dags. 3. febrúar sl. Umræðuefni fundarins var m.a. túlkun á endurgreiðsluákvæði (12. gr.) reglugerðar nr. 248/1990, hvernig bæri að skilja orðin almennt gangverð í 3.gr. reglugerðarinnar og hvenær starfsemi falli undir 3. og hvenær undir 4.gr. Jafnframt var spurt um hvort heimilt væri að endurgreiða virðisaukaskatt til stofnana og fyrirtækja í samrekstri sveitarfélaga.

Skattverð í starfsemi skv. 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Í 3. gr. framangreindrar reglugerðar segir að við innheimtu á útskatti skuli miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Af ákvæðinu er því ljóst að ef almennt gangverð liggur fyrir ber að miða skattverð við almennt gangverð. Ef almennt gangverð liggur ekki fyrir hefur ríkisskattstjóri heimilað að notað verði reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar og ágóða við hina skattskyldu starfsemi, sjá meðfylgjandi bréf ríkisskattstjóra dags. 10. nóv. 1993 (93/93). Samkvæmt framansögðu þá er það meginreglan að miða eigi við almennt gangverð enda liggi það sannanlega fyrir.

Hvenær fellur starfsemi undir 3. gr. og hvenær undir 4. gr. reglugerðarinnar?

Spurt var um hvort heimilt væri að nota skattverð skv. 4. gr. varðandi einstaka launamenn innan deilda. Af umræddum ákvæðum reglugerðarinnar er ljóst að annað hvort tilheyra starfsmenn þjónustudeild eða ekki. Ekkert er því til fyrirstöðu að einstakir starfsmenn sveitarfélags séu ávallt utan deilda og því skattverð varðandi eigin þjónustu í því tilviki fari eftir skattverðsreglu 4. gr. reglugerðarinnar. Aftur á móti væri ekki heimilt að flytja einstaka starfsmenn úr deildum þegar það er hagstæðara í einstökum afmörkuðum tilvikum.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu vegna sorpeyðingar.

Á umræddum fundi kom fram að í einhverjum tilvikum hafi skattstjórar hafnað endurgreiðslu reikninga vegna sorpeyðingar þar sem þeir hafi verið sundurliðaðir eftir vinnu og efnisþáttum. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, skal koma fram á reikningi tegund sölu, þ.e. lýsing á hinu selda ásamt magni. Meginreglan er því sú að reikningar skulu vera sundurliðaðir. Að áliti ríkisskattstjóra er ekki heimilt að hafna reikningum vegna sorpeyðingar á þeim grundvelli að ekki standi beinum orðum á reikningi að hann sé vegna sorpeyðingar ef ljóst er að seljandi hefur ekki aðra starfsemi með höndum en sorpeyðingu og að öðru leyti sé ljóst að salan varði sorpeyðingu vegna heimilissorps.

Endurgreiðsla vegna kaupa og leigu á sorpgámum.

Spurt var um hvort virðisaukaskattur vegna kaupa eða leigu á sorpgámum væri endurgreiðsluhæfur. Með reglugerð nr. 146/1995, um breyting á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, var ákvæði 1. tölul. 12. gr. reglugerðarinnar breytt á þann veg að heimilt er að endurgreiða sveitarfélögum þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar söfnunar sorps frá og með 1. janúar 1995. Tekið skal fram að ekki er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa eða leigu á sorpgámum til söfnunar annars úrgangs en heimilissorps.

Endurgreiðslur til stofnana og fyrirtækja í samrekstri sveitarfélaga.

Spurt var um hvort heimilt væri að endurgreiða stofnunum og fyrirtækjum þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á þeirri þjónustu sem um ræðir í 12. gr. umræddrar reglugerðar. Með reglugerð nr. 146/1995 sem að framan greinir var gildissvið endurgreiðsluákvæðisins rýmkað þannig að frá og með 1. janúar 1995 er heimilt að endurgreiða stofnunum og fyrirtækjum í samrekstri sveitarfélaga þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á þeirri vinnu og þjónustu sem talin er upp í 12. gr. umræddrar reglugerðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

 

Meðfylgjandi: Bréf nr. 93/93, til allra skattstjóra.