Dagsetning                       Tilvísun
12. maí 1995                            683/95

 

Virðisaukaskattur – rannsóknarstofa

Vísað er til bréfs yðar dags. 13. mars 1995, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á þeirri túlkun að þjónusta tilraunastöðvarinnar falli undir eiginlega heilbrigðisþjónustu og sé því undanþegin virðisaukaskatti.

Heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2.gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana sé undanþegin svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta.

Í bréfi yðar er því lýst í hverju starfsemi tilraunastöðvarinnar er fólgin og verður fjallað um hvern lið fyrir sig.

Brennsla dýra og efna

Á tilraunastöðinni mun vera brennsluofn þar sem dýr sem stofnunin rannsakar eru brennd. Einnig koma nokkrir dýralæknar, D og einstaklingar með hræ til brennslu og aðilar eins og S. og heilbrigðisstofnanir koma stundum með ýmis efni sem þarf að eyða.

Meginregla í virðisaukaskatti er, að störf í þágu atvinnuveganna svo og annarra eru virðisaukaskattsskyld svo fremi að þau séu ekki sérstaklega undanþegin í lögunum eða liður í lögboðnu eftirliti, enda þá ekki um samkeppni að ræða. Að mati ríkisskattstjóra teljast störf dýralækna ekki til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu. Þjónusta við þá, s.s. brennsla hræja er því ekki liður í eiginlegri heilbrigðisþjónustu og því virðisaukaskattskyld starfsemi. Sama gildir um brennslu efna fyrir hinar ýmsu stofnanir, nema lög kveði sérstaklega á um að þeim skuli fargað hjá opinberum aðila eða undir opinberu eftirliti.

Rannsóknir saursýna úr mönnum

Í bréfi yðar segir: “Við fáum send sýni frá ýmsum spítölum og læknum til rannsóknar. Tryggingastofnun ríkisins greiðir fyrir rannsóknir á sýnum úr sjúklingum sem ekki eru inniliggjandi á spítölunum þegar sýnin eru tekin, annars greiða viðkomandi stofnanir fyrir rannsóknirnar. Sjúklingar greiða sjálfir fyrir rannsóknirnar í örfáum undantekningartilfellum skv. reglum Tryggingastofnunar, þ.e. ef sjúklingar hafa ekki átt lögheimili á Íslandi síðustu sex mánuði fyrir rannsókn eða þeir finnast ekki í þjóðskrá.”

Að mati ríkisskattstjóra eru slíkar rannsóknir liður í eiginlegri heilbrigðisþjónustu og því undanþegnar virðisaukaskatti, enda eru þær framkvæmdar vegna beiðni frá lækni eða sjúkrastofnun.

Salmonellarannsóknir

“Vegna heilbrigðiseftirlits í matvöruframleiðslu fær Tilraunastöðin send sýni frá ýmsum matvöruframleiðendum, aðallega þó alifuglaframleiðendum, til rannsóknar. Sýnin frá framleiðendum eru tekin af viðkomandi héraðsdýralækni.”

Þessar rannsóknir flokkast undir lögbundið heilbrigðiseftirlit sem er þjónusta við almannahagsmuni og telst því undanþegin virðisaukaskattsskyldu.

Coggingspróf

“Sýni úr hestum sem eru fluttir lifandi út eru rannsökuð til að kanna hvort þeir séu haldnir einhverjum smitsjúkdómum. Þessi rannsókn er skilyrði í innflutnings-löndunum fyrir innflutningi hestanna.”

Dýralækningar teljast ekki til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu og er umrædd þjónusta því virðisaukaskattsskyld.

Fiskrannsóknir

“Vegna heilbrigðiseftirlits í fiskeldisstöðvum fær Tilraunastöðin send sýni frá þeim til rannsóknar. Sýnin eru tekin af viðkomandi héraðsdýralækni. Kveðið er á um þessar rannsóknir í lögum nr. 50 frá 1986 um Rannsóknadeild Fiskisjúkdóma sem er hluti Tilraunastöðvarinnar.”

Lögboðnar rannsóknir svo sem eftirlit með fiskeldisstöðvum vegna sýkinga sem upp geta komið eru undanþegnar virðisaukaskatti.

Sala á dýrablóði

“Ýmsar af rannsóknarstofnunum háskólans og spítalar kaupa af Tilraunastöðinni blóð til framleiðslu á svokölluðu æti sem notað er við rannsóknir.”

Sala á dýrablóði er vörusala sem er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Ekki skiptir máli hverjum er selt, eða til hverra nota varan er.

Aðstoð við rannsóknir annarra aðila og ýmsar aðrar rannsóknir þar sem sérfræðiálits er óskað

“Tilraunastöðin aðstoðar stundum utanaðkomandi aðila við rannsóknir sem þykja áhugaverðar. Í þessum tilfellum innheimtir Tilraunastöðin fyrir umhirðu og fóðrun tilraunadýra. Þessar rannsóknir eru undantekningarlaust framkvæmdar fyrir styrkfé sem oftast er veitt af opinberum aðilum. Einnig berast stöku sinnum fyrirspurnir til sérfræðinga stofnunarinnar um ýmis mál þar sem sérfræðiálits er óskað.”

Rannsóknir og sérfræðiálit fyrir utanaðkomandi aðila er virðisaukaskattsskyld starfsemi svo fremi að ekki sé um lögbundnar rannsóknir að ræða, þ.e. að lög kveði sérstaklega á um að opinberum aðila séu falin ákveðin rannsóknarefni. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvernig þeir sem kaupa af yður rannsóknir eða sérfræðiálit fjármagna sína starfsemi, þ.e. hvort það er gert með styrkjum af opinberu fé eða fjármagnað á annan hátt.

Að lokum skal þess getið að starfsemi sem almennt er talin virðisaukaskattsskyld er ekki skráningarskyld séu tekjur af henni alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður sem er heimfæranlegur á þá starfsemi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir