Dagsetning Tilvísun
16. maí 1995 684/95
Virðisaukaskattur af vinnu umboðsmanna söfnunarkassa
Vísað er til bréfs yðar dags. 8. desember 1994, þar sem óskað er eftir rökstuddu áliti ríkisskattstjóra á því, hvort þjónusta umboðsmanna sé undanþegin virðisauka-skatti eða ekki.
Í bréfi yðar er vitnað í bréf ríkisskattstjóra nr. 422/92 til R dags. 15. sept. 1992, þar sem m.a. kom fram að happdrætti og getraunastarfsemi væru undanþegin virðisaukaskatti sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Jafnframt að undanþágan tæki einnig til þess hluta starfseminnar sem felst í afhendingu vinninga o.þ.h. þjónustu söluaðila eða umboðsmanna.
Í bréfi yðar kemur fram að þér gerið greinarmun á söluaðilum og umboðsmönnum. Þar kemur fram að söluaðilar séu þeir sem eru með söfnunarkassana í húsnæði sínu. Umboðsmenn hins vegar sjái um tæmingar á kössum og aðra þjónustu. Þessu til staðfestingar sendið þér ljósrit af samningi R við umboðsmenn.
Samkvæmt samningi þessum er starf umboðsmanns fólgið í eftirfarandi:
Honum ber að hugsa eins vel um söfnunarkassana og honum er unnt, m.a. að sjá um viðgerðir, tæmingar, viðhald, umhirðu og í samráði við húseigendur að skiptimynt sé til á þeim stöðum þar sem kassar eru. Einnig ber honum að sjá um reikningsskil við R og húseigendur einu sinni í mánuði.
Happdrætti og getraunastarfsemi eru undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Söfnunarkassar (spilakassar) eru taldir falla undir happdrætti í þessu sambandi. Undanþágan tekur einnig til þess hluta starfseminnar sem felst í þjónustu söluaðila/umboðamanna, enda um sambærilega þjónustu að ræða og umboðsmenn happdrætta veita. Skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort einn eða fleiri sjá um umrædda þjónustu enda sé umsamin þóknun þeirra hlutfall af tekjum söfnunarkassanna.
Hvað viðgerðarþáttinn varðar verður eigi fallist á að undanþágan taki til meiriháttar viðgerða þ.e. þeirra viðgerða sem faglærðir iðnaðarmenn (eftir atvikum rafvirkjar, rafeindavirkjar o.fl.) framkvæma.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir