Dagsetning                       Tilvísun
20. júní 1995                            686/95

 

Námskeið til varnar reykingum

Vísað er til bréfs yðar dags. 23. maí 1995 þar sem þér leitið svara við því hvort námskeið sem þér hyggist halda til varnar reykingum séu virðisaukaskattsskyld eða ekki.

Í bréfi yðar kemur fram að þér eruð hjúkrunarfræðingur og starfið sem deildarstjóri á lungna- og berklavarnardeild. Námskeiðið felur í sér ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga sem vilja vera reyklaus.

Til svars erindinu skal tekið fram að í 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er undanþegin virðisaukaskatti þjónusta sjúkrahúsa, fæðingar- stofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta. Við ákvörðun þess hvort tiltekin þjónusta falli undir hugtakið “önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta” í 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, þarf starfsemi að mati ríkisskattstjóra að uppfylla þau skilyrði (1) þjónusta aðila falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og (2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga eða hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Þar sem sú þjónusta sem þér hyggist veita einstaklingum virðist uppfylla ofangreind skilyrði, þá er hún undanþegin skattsskyldu samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

Ráðgjöf gagnvart fyrirtækjum er aftur á móti ávallt skattskyld og getur undanþágu-ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2.gr. virðisaukaskattslaga ekki átt við þegar um er að ræða þjónustu í þágu annarra en einstaklinga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir