Dagsetning                       Tilvísun
25. sept. 1991                            698/95

 

Virðisaukaskattur af starfsemi björgunarskóla

Vísað er til bréfs yðar dags. 21. ágúst 1995, þar sem spurst er fyrir um skyldu yðar til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti.

Í bréfi yðar segir m.a.

“Stór hluti þeirra námskeiða sem haldin eru á vegum B er kennsla í skyndihjálp, en eins og flestir vita er kennsla í skyndihjálp einnig skyldu- og/eða valgrein í fjölmörgum skólum landsins. Auk þess er kennt í öðrum greinum sem tengjast björgunarstörfum s.s. notkun áttavita og korts, snjóflóðaleit, köfun, ferðamennsku, meðferð björgunarbáta, stjórnun björgunaraðgerða o.s.frv.”

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþeginn virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu “rekstur skóla og menntastofnana” sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem unnið hefur sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Samkvæmt upplýsingum í bréfi yðar svo og í símtali við skólastjóra B kemur fram að skóli sá er um ræðir er í eigu L, sem eru A, og S. Er skólanum ætlað að vera leiðandi aðili um fræðslu- og þjálfunarmál björgunar- og slysavarnarfólks hér á landi.

Að mati ríkisskattstjóra er þjálfun björgunar- og slysavarnarfólks nauðsynlegur þáttur í starfsemi sveitanna. Sú starfsemi telst vera undanþegin skyldu til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti þar sem hún er ekki rekin í atvinnuskyni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Það að B annist þjálfunarmál björgunar- og slysavarnarfólks hér á landi fyrir aðila að L er einungis hagkvæmnisatriði og greiðslur björgunarsveita og slysavarnarfélagsins fyrir námskeið fremur kostnaðarþátttaka en sala í hagnaðarskyni. Hins vegar geta námskeið s.s. í ferðamennsku talist vera virðisaukaskattsskyld starfsemi séu þau ekki þáttur í björgunarþjálfun og öllum opin.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir