Dagsetning Tilvísun
16. nóvember 1995 704/95
Virðisaukaskattur – Markaðsgjald – umboðssala/miðlun.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. október sl., þar sem óskað er eftir umsögn ríkisskattstjóra um stofn markaðsgjalds hjá Í og samstarfsaðilum hans.
Í bréfinu kemur m.a. fram að félagið annast sameiginleg uppboð aðildarmarkaða, hefur umsjón með ábyrgðum kaupenda, innheimtu, gagnaskráningu o.fl. Félagið er í eigu aðildarmarkaðanna og eru tekjur þess fyrst og fremst þóknun fyrir að annast sölu og innheimtu og er engin álagning á fiskverð heldur er söluverðmæti fisks á uppboðum Í. hið sama og samanlögð fisksala aðildarmarkaðanna. Auk þess er tekið fram að aðildarmarkaðirnir beri áhættu af greiðslufalli kaupanda ef sala fer fram úr settri tryggingu og þá eigi Í. kröfu á aðildarmarkaðina ef ekki tekst að innheimta kröfu sem er umfram ábyrgð.
Í bréfinu segir jafnframt:
“Í. hefur gert kaupendum fisks reikning í eigin nafni. Söluandvirðið hefur verið greitt aðildarmörkuðunum með afreikningi. Aðildarmarkaðirnir, sem taka við fiskinum og sjá um afgreiðslu hans til kaupenda, hafa síðan séð um uppgjör við seljendur fisksins og gefið út afreikninga til þeirra. Fiskveltan hefur bæði verið talin fram hjá Í. og aðildarmörkuðunum; og þannig tvöfaldað stofn til markaðsgjalds.
Áður en starfsemi félagsins hófst önnuðust einstakir markaðir, hver fyrir sig, alla þá þætti sem felast í uppboðssölu fisks. Eftir að starfsemi Í. hófst hefur þessu verið skipt milli félagsins og markaðanna, eins og lýst hefur verið, en engin eðlisbreyting hefur hins vegar orðið á. Hagkvæmnin af þessari skipan mála felst meðal annars í því að nú annast einn aðili innheimtumálin í stað sex áður, kaupendur fá einn reikning vikulega fyrir fiskkaupum, jafnvel þó þeir hafi keypt fisk af öllum aðildarmörkuðunum.”
Í framhaldi af þessu er í bréfinu settar fram tvær leiðir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tvöfalda álagningu markaðsgjaldsins. Annars vegar að félagið haldi starfsemi sinni óbreyttri og fái heimild til að draga hlut aðildarmarkaðanna frá stofni til markaðsgjalds. Hins vegar að félagið geri breytingar á starfsfyrirkomulagi sínu til þess að koma í veg fyrir tvöfalda veltu hjá félaginu og aðildarmörkuðum þess.
Til svars erindinu þá er markaðsgjald lagt á veltu atvinnufyrirtækja, eins og hún er skilgreind skv. 11. og 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með áorðnum breytingum. Af þeim sökum verður að kanna hvort mögulegt sé að gera breytingar á fyrirkomulagi viðskipta Í við aðildarmarkaðina svo að ekki verði lagt markaðsgjald á sömu veltuna tvisvar sinnum. Ljóst er að fiskurinn er í eigu aðildarmarkaðanna og ber þeim því að gefa út sölureikninga fyrir sölu eða afhendingu vörunnar. Það er hins vegar ekkert sem stendur í vegi fyrir því að Í sjái um reikningsútgáfu fyrir hönd aðildarmarkaðanna enda séu reikningar gefnir út í nafni þeirra en ekki Í. Ef viðskiptin yrðu með þeim hætti sem að framan greinir yrði velta vegna fisksölu einungis hjá aðildarmörkuðunum en Í gæfi þá út sölureikninga á hendur aðildarmörkuðum vegna afhentrar þjónustu í tengslum við sölumiðlunina.
Ljóst þykir að ekki er um að ræða eiginlega sölu á fiski milli aðildarmarkaðanna og Í enda er fiskurinn afhentur beint frá aðildarmörkuðum til kaupenda þrátt fyrir að Í gefi út sölureikninga vegna afhendingarinnar. Að þessu virtu er Í heimilt að standa að reikningsútgáfu sinni með þeim hætti sem að framan greinir og með því getur félagið lækkað veltu til markaðsgjalds sem nemur andvirði fisksölunnar frá aðildarmörkuðunum.
Virðingarfyllst,
f.h.ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.