Dagsetning                       Tilvísun
12. desember 1995                            706/95

 

Breyting á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Hér með sendist yður, hr. skattstjóri, ljósrit af reglugerð nr. 601/1995, frá 20. nóvember sl.

Reglugerðin lýtur annars vegar að breytingu á 6. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um það hvenær starfsemi telst rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki og hins vegar er um að ræða rýmkun á endurgreiðsluákvæði 5. tölul. 12. gr. reglugerðarinnar.

Breyting á ákvæði 6. gr. reglugerðarinnar er fyrst og fremst ætluð til að skýra og afmarka frekar þá starfsemi opinberra aðila sem telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Og er breytingin að mestu staðfesting á túlkun ríkisskattstjóra á ákvæðinu.

Aðdragandi breytingar á 5. tölul. 12. gr. reglugerðarinnar er sá að þjónustuaðili sem seldi sveitarfélagi hugbúnaðarþjónustu en er ekki háskólamenntaður kærði til samkeppnisstofnunar þá mismunun sem fólst í ákvæðinu, þ.e. sveitarfélag fékk ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á þjónustu frá þessum aðila þar sem hann er ekki háskólamenntaður. Í áliti Samkeppnisráðs var því beint til fjármálaráðherra að reglugerðinni yrði breytt á þann veg að orðalag hennar gæfi ekki tilefni til þeirrar þröngu túlkunar sem skattyfirvöld höfðu gripið til. Breytingin leiðir því til þess að ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra geta fengið virðisaukaskatt endurgreiddan vegna kaupa á sambærilegri þjónustu annarra aðila en þeirra sérfræðinga sem taldir eru upp jákvætt í ákvæðinu. Meðfylgjandi er umrætt álit samkeppnisráðs.

Jafnframt var gerð sú tæknibreyting að í stað reglugerðar nr. 501/1989 í 11. gr. kemur núgildandi reglugerð nr. 50/1993 um sama efni.

Að lokum skal tekið fram að reglugerðin öðlast gildi við birtingu sem var 30. nóvember sl.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

 

Hjálagt:          Álit Samkeppnisráðs nr. 7/1995.