Dagsetning Tilvísun
19. desember 1995 708/95
Virðisaukaskattur – tapaðar útistandandi viðskiptakröfur – þjófnaður
Vísað er til bréfs yðar dags. 25. október 1995, þar sem spurst er fyrir um, hvort fyrirtæki sé heimilt að draga frá skattskyldri veltu sinni 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptakröfum, sem töpuðust með þeim hætti að starfsmaður tók ófrjálsri hendi ávísanir úr pósthólfi sem fyrirtækið hefur á leigu. Ávísanir þessar voru greiðsla viðskiptamanna fyrirtækisins vegna kaupa þeirra á vörum fyrirtækisins.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er skráðum aðila heimilt að draga frá skattskyldri veltu 80,32 % af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum vegna sölu sem áður hefur verið talin til skattskyldrar veltu. Það er skilyrði fyrir leiðréttingu á skattskyldri veltu vegna tapaðra krafna að skuld sé sannanlega töpuð og að skýrt komi fram í bókhalds-gögnum á hverju það sé byggt að telja útistandandi viðskiptaskuld tapaða og hvað hafi verið aðhafst til að innheimta hana.
Í a. lið 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, segir að þjófnaður eða sjóðþurrð sem ekki fæst bætt sé frádráttarbær, enda sé sýnt fram á þau atvik með óyggjandi hætti. Sömu reglur gilda varðandi tap á viðskiptakröfum í virðisaukaskatti og tekjuskatti.
Í bréfi yðar kemur fram að ljóst er að umræddur starfsmaður getur ekki staðið skil á þeim fjárhæðum sem um ræðir. Einnig kemur fram í ljósriti af bréfi sem fylgdi bréfi yðar að kæra hefði verið lögð fram hjá rannsóknarlögreglu ríkisins.
Að áliti ríkisskattstjóra telst umrædd viðskiptakrafa töpuð þegar skýrsla rannsóknar-lögreglu liggur fyrir um þjófnaðinn og ljóst að umræddur aðili getur ekki staðið skil á fjárhæðum ávísananna. Skýrsla rannsóknarlögreglu skal liggja til grundvallar færslu í bókhaldi.
Sé krafa, sem afskrifuð hefur verið, síðar greidd að fullu eða hluta telst greiðslan til tekna á því ári sem hún átti sér stað.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir