Dagsetning Tilvísun
10. janúar 1996 710/96
Innskattur – greiðsla fyrir þriðja aðila
Vísað er til bréfs yðar dags. 26. september 1995, þar sem óskað er úrskurðar embættisins á því hvort þér hafið rétt til að telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum sem þér greidduð fyrir sem þriðji aðili.
Samkvæmt bréfi yðar er tilefni spurningarinnar eftirfarandi: Þér sem umboðsaðili S. sjáið um afgreiðslu á vörum sem koma til heimahafnar yðar með félaginu. Samkvæmt samningi er yður ekki heimilt að afhenda vöru nema hún sé að fullu greidd. Fari afhending fram án þess að til fullnaðargreiðslu hafi komið, er það alfarið á yðar ábyrgð.
Á árinu 1992 afhendið þér í gáleysi vöru sem ekki hafði verið greitt fyrir. Móttakandi vörunnar reyndist síðan ekki borgunarmaður fyrir allri kröfunni og á árinu 1994 var hann úrskurðaður gjaldþrota. Í ársbyrjun 1995 var gengið frá fullnaðargreiðslu af yðar hálfu við eiganda kröfunnar.
Í lok bréfsins farið þér fram á úrskurð embættisins á því hvort fyrirtæki yðar sé heimill innskattsfrádráttur af reikningum sem stílaðir eru á móttakanda vörunnar, þar sem upphæðin verður færð sem tapaðar kröfur í bókhaldi fyrirtækis yðar.
K, sem eiganda kröfunnar var heimilt að afskrifa kröfuna á B sem tapaða útistandandi viðskiptaskuld þegar B var úrskurðuð gjaldþrota. Þ.e. að draga 80,32% af kröfunni með virðisaukaskatti frá skattskyldri veltu þegar skuldin var sannanlega töpuð (við gjaldþrot).
K gerði síðan kröfu á yður fyrir því tjóni sem þeir urðu fyrir vegna mistaka yðar. Hér er ekki um að ræða tap á kröfu yðar, heldur hafið þér tekið þá ábyrgð á yður skv. sérstökum samningi að afhenda ekki vöru nema hún hafi verið greidd.
Þar sem þér stóðuð ekki við umræddan samning og afhentuð vöruna, bar yður að greiða tjón seljanda. Sú greiðsla er því greiðsla skaðabóta og því ekki um tap á kröfu að ræða, enda var umrædd krafa ekki áður talin til tekna hjá yður. Reikningar fyrir verði vörunnar eru sem fyrr segir gefnir út á nafn B og hafa því þegar verið taldir til innskatts hjá því fyrirtæki.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir