Dagsetning                       Tilvísun
23. janúar 1996                             714/96

 

Sala banka á skattskyldri vöru

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar 1995, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort L beri að innheimta virðisaukaskatt af sölu forrits til notkunar fyrir heimilisbókhald viðskiptavina sinna.

Í fyrirspurn yðar kemur m.a. fram að forrit þetta er ætlað til að auðvelda heimilisbókhald og er algjörlega sjálfstæð eining og tengist ekki öðrum forritum bankans svo sem bankalínu. Þeir viðskiptavinir bankans, sem nú þegar eru með bankalínu fá bókhaldsforritið endurgjaldslaust, en aðrir ýmist með afslætti eða á fullu verði kr. 1.000 eftir því hvers eðlis viðskiptin eru við bankann. Forritið er samið sérstaklega fyrir L af forriturum utan hans. Einnig kemur fram að líklegt sé að hagnaður verði af sölu forritsins. Sá hagnaður verður þó óverulegur.

Í bréfi yðar eru bornar fram eftirfarandi spurningar:

1. Er sala á þessu forriti virðisaukaskattsskyld eða getur salan talist hluti af almennri bankastarfsemi ?

Svar: Um er að ræða forrit sem á að hjálpa einstaklingum að halda öruggt og greinargott heimilisbókhald á einfaldan hátt. Ekki er um að ræða beinlínusamband við banka né er hægt að framkvæma færslur hjá banka inn á umræddu forriti. Hér er eingöngu um að ræða hjálpartæki við að halda utan um fjárútlát heimila. Salan telst því ekki nauðsynlegur þáttur í þjónustu banka og fellur því utan undanþágu 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Auk þess kemur fram í fyrirspurn yðar að ætlast sé til að sala forritsins standi undir kostnaði. Seljanda forritsins ber því að innheimta virðisaukaskatt af sölu þess.

2. Er heimilt að innskatta hlutfallslega virðisaukaskatt af kynningarkostnaði. Til dæmis af auglýsingum þar sem fleiri en eitt atriði eru auglýst saman ?

Svar: Meginregla virðisaukaskattslaga er sú að eingöngu er hægt að innskatta þann kostnað sem fellur til við kaup á aðföngum er varða eingöngu skattskylda starfsemi. En samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er heimilað að innskatta hlutfallslega af þeim kostnaði sem fellur til bæði vegna skattskylds- og skattfrjáls þáttar í starfsemi atvinnufyrirtækis. Ef um slík blönduð not er að ræða er heimilt að telja til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) er af heildarveltu ársins. Væri því bankanum heimilt að innskatta af auglýsingakostnaði þar sem forritið væri auglýst ásamt undanþeginni þjónustu bankans í því hlutfalli sem tekjur vegna sölu forritsins er af heildarveltu bankans þess árs.

Samkvæmt framansögðu ber bankanum að innheimta virðisaukaskatt við sölu umrædds bókhaldsforrits.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.