Dagsetning                       Tilvísun
29. janúar 1996                             716/96

 

Virðisaukaskattur -hagaganga hrossa – framsal jarðahlunninda – sala á veiðileyfum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. janúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af ýmis konar þjónustu tengdri landbúnaði og ferðaþjónustu.

Fyrirspurn yðar er í þremur liðum og verður hverjum lið svarað fyrir sig og þeirri röð sem þeir koma fyrir í bréfi yðar.

1. Spurt er hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af greiðslu fyrir lausagöngu hrossa í haga í ákveðinn tíma.

Svar:    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist enda sé hún ekki sérstaklega undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. Af upptalningu í téðu ákvæði verður ekki talið að umrædd þjónusta sé undanþegin virðisaukaskatti.

2. Spurt er hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af greiðslu fyrir rétt til að slá og nytja ræktað land til sláttar og ennfremur hvort skipti máli ef afgjaldið sé háð því magni af heyi sem af landinu fæst eða ekki.

Svar:    Framsal réttinda til töku á afurðum eða hlunnindum jarða fellur undir vöruhugtak virðisaukaskattslaga. Hér er átt við að sá sem öðlast þessi réttindi hafi ekki fullkominn umráðarétt yfir jörðinni og hlunnindum hennar, heldur hafi einungis heimild til að nýta jörðina að ákveðnu marki og gjaldtaka miðist við hversu mikið magn er nytjað. Í slíkum tilvikum er litið svo á að um vörusölu sé að ræða en ekki fasteignaleigu þar sem markmið samningsins er að selja vöru. Ef yfirráðaréttur að landinu er á hinn bóginn víðtækari þannig að rétthafi hefur rýmri heimild til nýtingar jarðarinnar er fremur um fasteignaleigu að ræða sem er undanþegin virðisaukaskatti. Við mat á því hvort um vörusölu eða fasteignaleigu er að ræða er m.a. lagt til grundvallar hvernig yfirráðum fasteignarinnar er háttað og gjaldtaka ákvörðuð.

3. Spurt er hvort sala á veiðileyfum til skotveiðimanna s.s. rjúpna- og gæsaskyttna sé virðisaukaskattsskyld.

Svar:    Sala á veiðileyfum (bæði lax- og silungsveiðileyfum og rjúpna- og gæsaveiðileyfum) er undanþegin virðisaukaskatti skv. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, þ.e. um er að ræða sölu á fasteignatengdum réttindum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.