Dagsetning                       Tilvísun
26. febrúar 1996                             721/96

 

Afnot vinnuskóla af aðstöðu í áhaldahúsi

Vísað er til bréfs yðar dags. 29. maí 1995 þar sem spurst er fyrir um innskatt vegna viðhalds og endurbóta á áhaldahúsi bæjarins.

Í bréfi yðar segir að vinnuskóli bæjarins fái afnot af hluta áhaldahússins (27.35%) í þrjá mánuði á ári. Þér spyrjið því hvort yður sé heimilt að nota 27,35/4 = 6,8375% til að reikna út hlutfall viðhalds og endurbóta v/Vinnuskólans.

Starfsemi áhaldahúsa er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Því ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu þeirra og við uppgjör skattsins má draga frá innskatt af aðföngum, þ.m.t. virðisaukaskatt af viðhaldi húsnæðis.

Starfsemi vinnuskóla er undanþegin virðisaukaskatti sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Því ber áhaldahúsinu ekki innskattsfrádráttur vegna viðhalds og endurbóta í þeim hlutföllum sem vinnuskólinn hefur afnot af húsnæðinu.

Af framansögðu þykir ljóst að ákvæði innskattsreglugerðar nr. 192/1993 gilda ekki um þetta tilvik þar sem engar tekjur eru af starfsemi vinnuskólans. Ríkisskattstjóri telur hins vegar að þar sem í þessu tilviki sé um að ræða virðisaukaskattsskyld afnot vinnuskólans af aðstöðu í áhaldahúsi beri að skila virðisaukaskatti af notkuninni. Við innheimtu á útskatti skal miða skattverð við almennt gangverð í samskonar viðskiptum, sbr. 2. málsl. 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Liggi almennt gangverð ekki fyrir í sams konar viðskiptum og um ræðir í 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990 skal ákveða skattverð í umræddri starfsemi með hliðsjón af reglum um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi, sbr. 2. tölul. auglýsingar nr. 17 í Stjórnartíðindum frá ríkisskattstjóra dags. 9. janúar 1996. Undir liðnum C. í 2.5 í reglum um stofn til virðisaukaskatts í byggingarstarfsemi er fjallað um skattverð vegna notkunar á vinnubúðum og er það álit ríkisskattstjóra að í umræddu tilviki beri að fara eftir viðmiðunarverði verkfæraskúra við innheimtu á útskatti.

Með vísan til framanritaðs ber því ekki að hlutfalla innskatt vegna afnotanna.

Beðist er velvirðingar á því hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir

 

Afrit: Samband íslenskra sveitarfélaga