Dagsetning                       Tilvísun
29. febrúar 1996                            722/96

 

Virðisaukaskattur – byggingarstarfsemi – íbúð sem endurgjald fyrir verktakavinnu.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 31. mars og 4. október 1995, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á ýmsum þáttum í byggingarstarfsemi.

Í fyrsta lagi er óskað álits á því hvenær og hvernig beri að telja greiðslu fyrir verktöku til skattskyldrar veltu þegar greiðslan er í formi íbúðar. Í öðru lagi er óskað álits embættisins á því hvort byggingaraðilar sem eru lóðarhafar en nota ekki vinnuafl launþega við byggingar-framkvæmdir geti fallið undir ákvæði reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Að síðustu er þeirri spurningu beint til embættisins hvort byggingaraðili geti – með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum virðisaukaskattslaga – talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem varða skattskylda starfsemi hans, þ.m.t. af almennum rekstrarkostnaði fyrirtækisins, húsnæðiskostnaði, skrifstofukostnaði o.s.frv.

Til svars fyrsta hluta fyrirspurnarinnar þá skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti seljandi þjónustu fær greitt heldur gildir hér afhendingarreglan, þ.e. hvenær hið selda er afhent. Meðfylgjandi bréfi yðar er verksamningur þar sem verkinu er skipt upp í verkþætti og fer afhending kaupsamninga íbúða fram eftir því hvernig framvinda verksins er. Í þessu tilviki ber verktaka að telja til skattskyldrar veltu og gefa út reikning í samræmi við afhendinguna en endurgjald skv. samningi verktaka og verkkaupa eru í formi íbúða og eru kaupsamningar vegna hverrar íbúðar undirritaðir eftir því sem verkinu vindur fram. Þó ber þess að gæta að við undirritun verksamningsins er jafnframt undirritaður kaupsamningur vegna fyrstu íbúðarinnar, þ.e. áður en afhending getur orðið hjá aðilum. Hér er því kaupsamningur gerður áður en verk er unnið og áður en gagngjaldið (íbúðin) er afhent og ber því ekki að telja andvirði gagngjaldsins til skattskyldrar veltu fyrr en fyrsta áfanga er lokið og fyrsta afhending fer fram. Samkvæmt samningnum er vinna verktakans metin á kr. 32.000.000 með virðisaukaskatti og íbúðirnar eru metnar á kr. 37.000.000 en með áhvílandi skuldum alls að fjárhæð kr. 5.000.000. í 3. gr. verksamningsins er sagt að virðisaukaskattur sé innifalinn í ofangreindri fjárhæð sem gerir að verkum að skattverðið er 80,32% af kr. 32.000.000 eða kr. 25.702.400. Skattverð hverrar greiðslu er þá íbúðarverðið að frádregnum áhvílandi skuldum og virðisaukaskatti. Sem dæmi skal tekið að þegar greitt er með íbúð að fjárhæð kr. 6.835.000 með áhvílandi skuld að fjárhæð kr. 833.000, þá er skattverðið => 6.835.000 kr. – 833.000 kr. – 1.181.194 kr.= 4.820.806 kr.

Hvað varðar annan þátt fyrirspurnar yðar þá taka ákvæði reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, einungis til þeirra sem nota vinnuafl launþega við byggingarframkvæmdir nema byggingaraðili sjálfur inni einhverja vinnu af hendi við hönnun og framkvæmdir enda sé um að ræða störf í iðn- eða sérfræðigrein hans eða sambærilegri starfsgrein.

Síðasti þáttur fyrirspurnar yðar lýtur að því hvort byggingaraðili geti – með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum virðisaukaskattslaga – talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem varða skattskylda starfsemi hans, þ.m.t. af almennum rekstrarkostnaði fyrirtækisins, húsnæðiskostnaði, skrifstofukostnaði o.s.frv. Til svars þessu þá á hið stranga ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar einungis við byggingarstarfsemina sem slíka, þ.e. virðisaukaskatt af aðföngum er varða eingöngu byggingarstarfsemina er almennt ekki heimilt að telja til innskatts. Aftur á móti er þeim sem stunda byggingarstarfsemi heimilt eins og öðrum virðisaukaskattsskyldum aðilum að telja til innskatts virðisaukaskatt af almennum rekstrar-kostnaði enda er gert ráð fyrir slíkum kostnaði í skattverðsreglu 6. gr. reglugerðarinnar. Að þessu leyti skal bent á að liður 2.3 í auglýsingu nr. 8/1994, frá ríkisskattstjóra, um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi, fjallar um álag á laun og launatengd gjöld fyrir m.a. föstum kostnaði og ágóða.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.