Dagsetning Tilvísun
29. mars 1996 728/96
Mötuneyti – virðisaukaskattur
Vísað er til bréfs yðar dags. 25. janúar 1996, þar sem spurst er fyrir um meðferð starfsmannafélaga á “mötuneyti” eða hádegisverðarsjóðum.
Í bréfi yðar eru gefin tvö dæmi um hvernig slíkt færi fram:
“….starfsmannafélag hjá ákveðnu fyrirtæki sér um að kaupa brauð og álegg og síðan er annaðslagið hituð súpa. Starfsmenn merkja síðan við hvað þeir borða margar sneiðar og hvort þeir fá sér súpudisk, einungis er selt til starfsmanna fyrirtækisins ekki er selt til almennings. Starfsmenn geta valið um að borga í hvert skipti eða safnað saman fyrir mánuðinn í heild. Tekjur umfram gjöld lenda í sjóði starfsmannafélagsins.”
og
“…. starfsmannafélag þar sem oftast er um að ræða brauð og álegg, en þó er stefnt að því að elda heita máltíð tvisvar í viku. Hér er starfsmaður hálfan daginn á launum hjá fyrirtækinu sem sér um innkaupin og eldamennskuna. Að öðru leyti sér starfsmannafélagið alveg um greiðslu aðfanga og innheimtu á matnum. Einungis er selt til starfsmanna og tekjur umfram gjöld lenda í sjóði starfsmannafélagsins.”
Félög þ.m.t. starfsmannafélög eru skattskyld vegna sölu sinnar á skattskyldri vöru og þjónustu sem fram fer í atvinnuskyni og í samkeppni við atvinnufyrirtæki, enda þótt þau selji aðeins félagsmönnum sínum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Starfsemi telst vera rekin í atvinnuskyni, ef samtals tekjur vegna hennar er alltaf eða nær alltaf hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Samkvæmt bréfi yðar eru tekjur umfram gjöld eign starfsmannafélagsins, starfsemin er því rekin með hagnaði og er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt ofanrituðu.
Í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga segir: “Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis samkvæmt nánari afmörkun í reglugerð þó ekki sala á sælgæti og drykkjarvörum og fleiri vörum sem falla undir gjaldflokk D í lögum nr. 97/1987, um vörugjald, né sala á áfengum drykkjum og ógerilsneyddri mjólk. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er þó skattskyld skv. 1. mgr. þessarar greinar.” Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 554/1993, um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis o.fl., ber að innheimta 24.5% virðisaukaskatt af framangreindri sölu.
Samkvæmt framansögðu er sú fæðissala sem hér um ræðir virðisaukaskattsskyld. Í síðara dæminu er um starfsmannamötuneyti að ræða og ber að fara með starfsemina samkvæmt leiðbeiningum um virðisaukaskatt af starfsmannamötuneytum 4. kafla, sem sendast yður með bréfi þessu.
Að lokum er spurt hvort það breytti einhverju ef starfsmannafélögin í ofangreindum dæmum seldu einnig súkkulaði og gosdrykki og einnig hvort fjöldi starfsmanna skipti einhverju máli.
Fjöldi vöruflokka sem seldur er ræður ekki úrslitum um virðisaukaskattsskyldu né heldur fjöldi félaga í starfsmannafélögum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Hjálagt: Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af starfsemi starfsmannamötuneyta (dags. 06.12.1995).