Dagsetning                       Tilvísun
29. mars 1996                            729/96

 

Virðisaukaskattur – húðflúrstofa

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. febrúar 1996, þar sem þér fyrir hönd umbjóðanda yðar leggið fram fyrirspurn um möguleika húðflúrstofu á að þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt.

Af bréfi yðar má ráða að þér teljið að undanþáguákvæðið í 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga geti náð til starfseminnar. Það ákvæði tekur aðeins til sölu listamanna á eigin verkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000, og eru verk þau sem um getur í þessari starfsemi ekki þeirra á meðal.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þess að ekkert undanþáguákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tekur til starfsemi af því tagi sem um getur í bréfi yðar er umrædd starfsemi virðisaukaskattsskyld.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir