Dagsetning                       Tilvísun
18. apríl 1996                            731/96

 

Skattskylda vegna endurgreiðsluþjónustu við erlenda ferðamenn.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. mars 1996, sem móttekið var 2. apríl sl., þar sem spurst er fyrir um skattskyldu fyrirtækis sem hyggst veita erlendum ferðamönnum endurgreiðsluþjónustu á grundvelli reglugerðar nr. 500/1989, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna, sbr. breytingu skv. reglugerð nr. 175/1996.

Tekið er fram í erindinu að tekjur fyrirtækisins séu tvíþættar:

„Annars vegar er um að ræða skráningargjöld þeirra verslana sem skrá sig hjá fyrirtækinu en hins vegar eru um að ræða þóknun sem tekin er af hinum erlendu ferðamönnum sem fyrirtækið sér um innheimtu virðisaukaskatts fyrir. Þessi þóknun er ákveðið hlutfall af endurgreiðslunni.“

Til svars skal fyrst tekið fram að sala á þjónustu er almennt virðisaukaskattsskyld nema hún sé sérstaklega undanþegin, sbr. upptalningu 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 eða að aðilinn sem um ræðir sé ekki talinn skattskyldur skv. 3. gr. laganna. Að áliti ríkisskattstjóra fellur sú þjónusta sem hér um ræðir ekki undir neinn tölulið í 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og er því skattskyld. Önnur starfsemi fyrirtækisins s.s. markaðsathuganir og upplýsingagjöf er einnig skattskyld. Jafnframt er ljóst að starfsemi þessi er rekin í atvinnuskyni og rekstraraðili hennar er því skattskyldur aðili skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í erindi yðar er bent á að í Danmörku sé sambærileg starfsemi virðisaukaskattsskyld og njóti almennra reglna um innskattsfrádrátt. Hins vegar sé farið með tekjur af þóknun fyrir endurgreiðsluþjónustu við erlenda ferðamenn sem undanþegna veltu. Óskað er upplýsinga um það hvaða reglur gildi á Íslandi í þessum efnum.

Í dönsku lögunum um virðisaukaskatt er sérstakt ákvæði sem kveður með beinum hætti á um að sala á þjónustu í tengslum við útflutning vöru út fyrir sameiginlegt markaðssvæði ESB-landanna sé undanþegin skattskyldri veltu. Í 12. gr. íslensku virðisaukaskattslaganna er kveðið á um undanþágur frá skattskyldri veltu en þar er ekki að finna sambærilegt ákvæði og í dönsku lögunum. Í 2. mgr. er á hinn bóginn heimild til handa fjármálaráðherra til að undanþiggja frá skattskyldri veltu þjónustu sem innt er af hendi hér á landi fyrir aðila heimilisfasta erlendis. Reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá er m.a. sett með stoð í þessu ákvæði en í henni er ekki að finna ákvæði sem undanþiggur umrædda þjónustu frá skattskyldri veltu. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er til skoðunar í fjármálaráðuneyti hvort breyta eigi þessari reglugerð í þá veru að setja ákvæði til undanþágu fyrir umrædda endurgreiðsluþjónustu.

Endurgreiðsluþjónusta við erlenda ferðamenn er að mati ríkisskattstjóra skattskyld þjónusta sem telst innt af hendi hér á landi. Þóknun sem innheimt er fyrir veitta þjónustu telst til skattskyldrar veltu miðað við gildandi reglur. Fyrirtækið sem um ræðir, E, skal því við óbreyttar reglur innheimta og skila virðisaukaskatti af allri sölu sinni á þjónustu og vörum og nýtur á móti fulls innskattsfrádráttar skv. almennum reglum virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson