Dagsetning                       Tilvísun
21. maí 1996                            738/96

 

Virðisaukaskattur – bókhald – tölvuþjónusta – sveitarfélög

Vísað er til bréfs yðar dags. 7. febrúar 1996. þar sem spurst er fyrir um greiðslu virðisaukaskatts vegna bókhalds og tölvuþjónustu svo og endurgreiðslu virðisauka-skatts til sveitarfélaga vegna þeirrar þjónustu.

Í bréfi yðar eru þrjár fyrirspurnir/dæmi um fyrirkomulag og spurt um skyldu til að innheimta virðisaukaskatt svo og rétt sveitarfélaga til að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan skv. 12. gr. reglug. nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila sbr. breytingar skv. reglug. nr. 601/1995.

  1. Stofnun í eigu sveitarfélaga kaupir bókhaldsþjónustu af einstaklingi sem rekur bókhaldsstofu. Hér er um að ræða venjulega færslu bókhalds ásamt viðeigandi útskriftum. Viðkomandi einstaklingur er ekki sérmenntaður á sviði bókhalds, en hefur lokið stúdentsprófi af verslunarsviði.
  2. Sveitarfélög á E standa saman að ýmsum stofnunum sem eru sameign þeirra svo sem Heilbrigðiseftirlit og Héraðsnefnd. Eitt sveitarfélagið hefur annast skrifstofuhald fyrir þessar stofnanir tekið gjald fyrir veitta þjónustu. Virðisaukaskattur hefur verið reiknaður á þessa þjónustu fram til þessa.
  3. Komið hefur til tals að sveitarfélög á E komi á fót tölvumiðstöð sem sæi sveitarfélögunum á svæðinu og stofnunum á þeirra vegum fyrir tölvuþjónustu. Þessi þjónusta yrði seld út frá tölvumiðstöðinni til sveitarfélaga og stofnana þeirra, en ekki yrði um að ræða sölu á þjónustu til utanaðkomandi aðila.

Í öllum dæmunum er um virðisaukaskattsskylda starfsemi að ræða. Í öðru dæminu fæst virðisaukaskattur ekki endurgreiddur skv. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, þar sem um almenna skrifstofuþjónustu er að ræða.

Í fyrsta og þriðja dæminu er um sérfræðiþjónustu að ræða, þar sem virðisaukaskatturinn fæst endurgreiddur skv. 5. tölul. 12. gr. ofannefndrar reglugerðar. Í fyrsta dæminu er um sérfræðiþjónustu að ræða miðað við breytinguna sem varð á ákvæðinu með reglugerð nr. 601/1995. Hvað tölvuþjónustuna varðar skal tekið fram að ákvæðið á einungis við vinnu við hugbúnað en ekki vélbúnað.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir