Dagsetning                       Tilvísun
21. maí 1996                            739/96

 

Virðisaukaskattur – frádráttarbær rekstrargjöld – styrkur.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. maí sl., þar sem óskað er álits á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu styrktarlína sem birtar yrðu í ferðabók/skáldsögu.

Af bréfi yðar má ráða að umræddir styrkir séu veittir í þeim tilgangi að greiða fyrir þann kostnað sem verður til við efnisöflun og könnun heimilda höfundar, þ.m.t. ferðakostnaður.

Í fyrirspurn yðar er því haldið fram að umræddir styrkir gætu talist auglýsingarkostnaður þar sem þess verður getið í reisubók við lok ferðar hverjir hafi styrkt leiðangurinn og þar af leiðandi gerð þeirrar bókar sem af honum sprettur.

Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að umræddir styrkir geti ekki talist sala á auglýsingum eða svokölluð kostun enda eru styrkirnir veittir vegna ritverksins en ekki útgáfu bókarinnar sem slíkrar og gert ráð fyrir því að annar aðili beri kostnað af útgáfu bókarinnar en rithöfundurinn. Af þessu leiðir ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af veittum styrkjum.

Í þessu sambandi skal tekið fram að í samræmi við framangreint teljast styrkirnir ekki auglýsingakostnaður sem er frádráttarbær frá tekjum skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þess ber þó að geta að ef uppfyllt eru skilyrði 15., 16., 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 483/1994, sem fjalla um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl. er þeim sem veita umrædda styrki heimilt að draga framlög sín frá tekjum sbr. 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

Friðgeir Sigurðsson.