Dagsetning                       Tilvísun
10. júní 1996                             741/96

 

Virðisaukaskattur – lagastoð 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. júní sl., þar sem óskað er eftir umsögn ríkisskattstjóra um hvort 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, skorti lagastoð.

Í bréfi því er fylgdi erindi yðar er því haldið fram að 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993 skorti lagastoð þar sem 2 málsliður ákvæðisins, um að það skipti ekki máli þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar, sé viðbót við bannreglu 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Jafnframt segir í bréfi yðar: “Við skýringu á framangreindu undantekningarákvæði í 3. mgr. 16. gr. vsk. verður að hafa í huga þá meginreglu við lögskýringu að íþyngjandi undantekningarákvæði m.a. í skattalögum beri að skýra þröngt og alls ekki rýmra en orðalag gefi beinlínis tilefni til.”

Til svars erindinu skal í fyrsta lagi bent á að í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt segir að til innskatts á hverju uppgjörstímabili skuli telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í framangreindu ákvæði kemur meginregla innskattsfrádráttar fram og er þar ekki heimilaður innskattsfrádráttur vegna virðisaukaskatts af aðföngum sem eru jafnframt til annarra nota. Aftur á móti er í 2. mgr. sömu greinar heimild til handa ráðherra að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Ráðherra hefur nýtt sér þessa heimild með setningu ákvæða um blönduð not í reglugerð um innskatt, sbr. II. kafli reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Ljóst er við skoðun þeirra ákvæða sem vísað er til að framan að ráðherra hefur ákveðið að heimila ekki innskatt að hluta vegna íbúðarhúsnæðis en í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar sem fjallar um fasteignir er sagt að um íbúðarhúsnæði fari skv. 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar. Í 2. tölul. 2. gr. er síðan skýrlega kveðið á um að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða rekstri íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn og skipti þar engu máli þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar. Til stuðnings því sem að framan greinir skal jafnframt bent á athugasemdir við 16. gr. í frumvarpi til virðisaukaskattslaganna en þar segir orðrétt:

“Samkvæmt þessu ákvæði væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta er notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækisins. Í 2. mgr. er hins vegar að finna ákvæði þar sem fjármálaráðherra er heimilað að setja reglur um frádrátt að hluta (eftir atvikum hlutfallslegan frádráttarrétt) vegna virðisaukaskatts á innkaupum sem varða ekki að fullu sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu.”

Jafnframt segir í ofangreindum athugasemdum:

“Í 3. mgr. eru tiltekin ýmis innkaup sem ekki koma til greina við uppgjör innskatts. Athygli skal vakin á því að það leiðir þegar af ákvæðum 1. mgr. að frádráttur innskatts á vörum sem keyptar eru til einkaneyslu eigandans er óheimill.”

Samkvæmt framansögðu er ljóst að ákvæði 2. tölul. 2. gr. innskattsreglugerðar hefur skýra lagastoð í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en er ekki viðbót við 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. sömu laga eins og haldið er fram í umræddri fyrirspurn. Að síðustu skal ítrekað að meginreglan fyrir innskattsfrádrætti er að aðföng varði eingöngu hina skattskyldu starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.