Dagsetning Tilvísun
5. júlí 1996 743/96
Uppgjör á virðisaukaskatti vegna slita á fjármögnunarleigusamningi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. maí sl., þar sem óskað er eftir leiðbeiningum ríkisskattstjóra um hvernig haga skuli uppgjöri virðisaukaskatts vegna slita á fjármögnunarleigusamningi.
Í bréfi yðar segir m.a.:
“Þrotamaður hafði áður en bú hans var tekið til skipta á fjármögnunarleigu tvo malarvagna hjá L. Þar sem um eignarmyndun var að ræða, varð það að samkomulagi með skiptastjóra og L. að malarvagnarnir yrðu seldir og búinu yrði skilað þeirri eignamyndum sem myndast hafði í vögnunum. L. annaðist sölu vagnanna.
Við uppgjör milli þrotabúsins og L. gaf L. út m.a. 2 kreditreikninga vegna virðisaukaskatts sem eru bakfærðar leigugreiðslur samnings um fjármögnunarleigu vegna áður útgefinna ógreiddra leigureikninga, að fjárhæð kr. 2.194.556.00 og var virðisaukaskattur kr. 537.666. Voru reikningar þessir gefnir út á Þ.”
Til svars fyrirspurnar yðar skal tekið fram að leigusala ber ávallt að innheimta og skila virðisaukaskatti af gjaldfallinni leigugreiðslu, hvort sem hún hefur verið greidd eða verði greidd síðar enda um að ræða endurgjald fyrir virðisaukaskattsskylda þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi. Af þessu leiðir er leigusala óheimilt að gefa út kreditreikninga vegna áður útgefinna ógreiddra sölureikninga fyrir tímabil sem leigumunur hefur verið til afnota fyrir leigutaka þó að hann hafi vanefnt leigusamning.
Hvað varðar greiðslu ógjaldfallinnar leigu (framtíðarleigu) vegna samningsrofa er það álit ríkisskattstjóra að slíkar greiðslur séu í eðli sínu skaðabætur innan samninga og beri því ekki að innheimta virðisaukaskatt í þeim tilvikum enda er greiðslan ekki vegna afhendingar á skattskyldri vöru eða þjónustu. Jafnframt skal tekið fram að greiðslur til leigutaka vegna uppgjörs við riftun samnings eru ekki vegna sölu eða afhendingar á skattskyldri vöru eða þjónustu og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeim.
Þegar fram fer uppgjör vegna fjármögnunarleigusamninga sbr. 28. gr. meðfylgjandi samnings er það vegna samningsrofa og því eru þær greiðslur sem fara á milli samningsaðila eins konar bætur innan samninga en ekki er í neinum tilvikum um að ræða viðskipti sem geta fallið undir skattskyldusvið virðisaukaskattslaga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.