Dagsetning Tilvísun
15. júlí 1996 744/96
Þjónusta R – framleiðsla ökuskírteina
Vísað er til símbréfs yðar, sem barst embættinu í dag og minnisblaðs frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem fylgdi.
Fyrirhugað er að gefa út ný ökuskírteini í formi plastkorts í stærð kreditkorts. Í ökuskírteininu yrði m.a. skönnuð mynd af korthafa. Þar sem þetta fyrirkomulag kallar á aðra tækni en fyrir hendi er og tækjabúnaður mjög dýr, leitar ráðuneytið annarra leiða en að fjárfesta í slíkum búnaði. Í því skyni hefur ráðuneytið leitað eftir viðræðum við R (R) en fyrirtækið hefur yfir að ráða öllum þeim búnaði sem til þarf.
Spurt er, hvort R þyrfti að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem fyrirtækið léti ráðuneytinu í té þ.e. að framleiða ökuskírteini gegn tilteknu gjaldi.
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskylda til allrar vinnu og þjónustu nema hún sé sérstaklega undanþegin. Ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaganna tekur til þeirrar þjónustu sem lýst er hér að ofan. R þarf því að innheimta virðisaukaskatt af slíkri þjónustu sé hún látin ráðuneytinu í té.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón H. Steingrímsson