Dagsetning                       Tilvísun
26. nóvember 1996                            763/96

 

Ný reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila og breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.

Hér með sendist yður, hr. skattstjóri, ljósrit af reglugerðum nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattskyldra aðila, frá 1. október sl. og reglugerð nr. 588/1996, um breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, frá 8. nóvember sl.

I

Reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, kemur í stað eldri reglugerðar nr. 150/1996, um sama efni.

Eins og að framan segir þá kemur reglugerðin í stað eldri reglugerðar um sama efni þó að fyrri reglugerðin hafi aldrei komið til framkvæmda þar sem hún átti að taka gildi sama dag og nýrri reglugerðin felldi hana úr gildi.

Með setningu reglugerðarinnar er að stórum hluta verið að skrásetja þær reglur um skráningu sem verið hafa í framkvæmd til þessa. Jafnframt eru nokkur nýmæli í reglugerðinni og eru þau aðallega staðsett í II. kafla sem fjallar um fyrirfram skráningu o.fl. og IV. kafla sem fjallar um uppgjörstímabil og hvenær trygging fyrir virðisaukaskatti fellur niður.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar varða:

1)         Fyrirfram skráningu aðila sem eru á undirbúnings- eða þróunarstigi.

2)         Ákvæði um setningu tryggingar fyrir virðisaukaskatti aðila þegar ekki er fyrirsjáanlegt að starfsemi muni skila tekjum ásamt ákvæðum um niðurfellingu eða innheimtu hennar.

3)         Afturvirka skráningu aðila sem hefur verið synjað um skráningu áður

4)         Ársuppgjör nýrra aðilar á skrá og nytjaskógræktaraðila.

Þrátt fyrir að I. kafli reglugerðarinnar sé í raun staðfesting á framkvæmdarreglum er gerður skýr greinarmunur á þeim sem eru skráningarskyldir aðilar og þeim sem geta fengið svokallaða fyrirfram skráningu. Hér er átt við ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar þar sem segir í lokamálslið hennar að eigi skuli skrá aðila samkvæmt ákvæðinu nema sýnt þyki að starfsemin muni skila tekjum af sölu á fyrsta uppgjörstímabili. Að öðrum kosti verða þeir skráðir fyrirfram skráningu, eigi þeir yfirleitt rétt á skráningu án tryggingar, en sú skráning er tímabundin og þarf annaðhvort að uppfylla skilyrði 2. gr. eða fá framlengingu skráningar hjá skattstjóra þegar skráningartími er á enda.

Með þessu bréfi verður ekki farið ofan í saumana á hverju ákvæði fyrir sig þar sem á nýafstöðnum fundi með skattstofufólki 8. nóvember sl. var farið yfir efni reglugerðarinnar ásamt því að kynntar voru breytingar á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Þess skal þó getið að skattstjórum verða sendar frekari leiðbeiningar fyrir gildistöku reglugerðarinnar en hún er 1. janúar 1997.

Samt sem áður er nauðsynlegt að koma nú þegar á framfæri upplýsingum varðandi skráningu og tryggingar þeirra aðila sem hafa með höndum nytjaskógrækt.

Þegar skattstjóri fær tilkynningu um nýskráningu aðila sem er að hefja nytjaskógrækt ber honum að kanna hvort fyrirsjáanlegt sé að starfsemin muni skila tekjum. Hér ber skattstjóra því að kanna hvort landið sem ætlað er undir ræktunina sé til þess fallið að hefja nytjaskógrækt á. Í þessu sambandi væri nægjanlegt að landið hafi verið metið hentugt til nytjaskógræktar af Skógrækt ríkisins eða öðrum sambærilegum hlutlausum aðila. Ef svo er ekki verður ekki séð að starfsemin sé í atvinnuskyni og ber því að hafna skráningu nema aðili setji tryggingu skv. 1. málsl. 1. mgr. 6. gr.(skilyrðislausa sjálfskuldarábyrgð banka).

Ef aftur á móti landið hefur verið metið sem hentugt til nytjaskógræktar þá getur skattstjóri fallist á tryggingu í öðru formi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Ríkisskattstjóri telur rétt, svo að samræmis sé gætt, að skattstjórar krefji aðila sem eru í nytjaskógrækt um yfirlýsingu þar sem því er lýst yfir að öll þau aðföng sem virðisaukaskattur fæst endurgreiddur af samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar verði eingöngu notuð til nytjaskógræktar. Í yfirlýsingunni skal jafnframt koma fram að verði landið tekið til annarra nota eða afhent eða selt öðrum aðila til nota við rekstur eða starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti sé aðilinn skuldbundinn til að greiða ríkissjóði þann virðisaukaskatt sem hann hefur fengið endurgreiddan áður en notkun sé breytt eða afhending eða sala fari fram. Yfirlýsingu þessari skal þinglýst sem kvöð á landinu áður en aðila er endurgreiddur virðisaukaskattur vegna starfseminnar. Ef eigendaskipti verða á slíkri starfsemi getur hinn nýi eigandi yfirtekið kvöðina en ef hann gerir það ekki ber seljanda að greiða ríkissjóði tilbaka þann virðisaukaskatt sem hann hefur fengið endurgreiddan.

Í bráðabirgðaákvæði með reglugerðinni er tekið fram að nytjaskógræktaraðilar sem hafa verið skráðir fyrir gildistöku hennar skuli setja tryggingu skv. 6. gr. af aðföngum sem aflað er eftir 1. janúar 1997 annars skuli skattstjóri úrskurða þá af skrá.

Til upprifjunar fyrir þá sem voru á umræddum fundi 8. nóvember sl. þá sendast með ljósrit af glærum sem notaðar voru við kynningu á ákvæðum reglugerðarinnar.

II

Reglugerð nr. 588/1996 um breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.

Meginbreyting reglugerðarinnar varðar 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sem fjallar um ársuppgjör virðisaukaskatts. Með breytingunni munu allir aðilar sem hafa skattskylda veltu undir 800.000 kr. á ári gera upp virðisaukaskatt sinn einu sinni á ári. Fyrir breytinguna gilti að aðilar sem höfðu veltu undir 800.00. kr. tvö almanaksár í röð bar að vera í ársuppgjöri, þ.e. tíminn er nú styttur í eitt ár. Jafnframt munu aðilar sem eru nýir á skrá verða í ársuppgjöri sem og nytjaskógræktaraðilar. Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 1997.

Í 2. mgr. eru taldir upp allir þeir aðilar sem falla ekki undir ársuppgjörsregluna en þeir eru:

1)         Aðilar sem stunda landbúnað.

2)         Aðilar sem geta fengið heimild til skemmri skila.

3)         Aðilar sem eru með sérstaka skráningu skv. I. kafla reglugerðar nr. 577/1989.

4)         Aðilar sem hafa yfirtekið rekstur skv. 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga enda hafi seljandi ekki verið með ársuppgjör

5)         Aðilar sem hafa fengið fyrirfram skráningu eða skráningu á grundvelli tryggingar fyrir virðisaukaskatti, sbr. 4. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996.

6)         Aðilar sem gera upp skv. reglugerð nr. 58/1991, um innheimtu virðisaukaskatts af dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum.

Í 5. mgr. 3. gr. er einnig nýmæli en þar segir að ef aðili sem er með ársuppgjör hættir starfsemi þá skuli hann ávallt gera upp virðisaukaskatt sinn á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils sem starfsemi lýkur.

Aðrar breytingar á reglugerðinni skýra sig sjálfar.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að þrotabú munu verða með sama uppgjör á virðisaukaskatti og hin gjaldþrota starfsemi enda er ekki talið að þar sé um nýjan aðila að ræða.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

 

Hjálagt:

1) Ljósrit af reglugerð nr. 588/1996

2) Ljósrit af reglugerð nr. 515/1996

3) Ljósrit af glærum v/fundar 8. nóv. sl.