Dagsetning Tilvísun
6. des. 1996 766/96
Virðisaukaskattur vegna næringarráðgjafar.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. september 1996, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af þjónustu, sem felst í ráðgjöf á sviði matvæla- og næringarmála. Segir í bréfi yðar að þjónustan sé fólgin í einstaklingsráðgjöf, ráðgjafastarfi til sjúkrastofnana og annarra stofnana og fyrirtækja, auk fræðslustarfa.
Í bréfi yðar kom fram að starfsemi Næringarráðgjafarinnar felst í :
a) Fæðisráðgjöf til einstaklinga vegna hinna ýmsu sjúkdóma. Einstaklingar koma til meðferðar vegna tilvísunar læknis eða að eigin ósk. Tilvísanir lækna eru ekki alltaf skriflegar þar sem Næringaráðgjöfin er ekki með samning við Tryggingarstofnun ríkisins og komugjald því ekki niðurgreitt af hálfu hins opinbera.
b) Ýmis konar ráðgjöf til einstaklinga á sjúkrastofnunum. Slík ráðgjöf er samkvæmt beiðni læknis eða hjúkrunarfræðings á viðkomandi stofnun.
c) Næringarráðgjöf til eldhúsa stofnana vegna sérfæðis eða lagfæringa á almennu fæði. Starfsfólki eldhúsa fyrirtækja og stofnana er þannig oft ráðlagt.
d) Fyrirlestrum eða kennslu um matvæla- og næringarmál, m.a. fyrir íþróttahreyfinguna, skóla, námsflokka og sambýli þroskaheftra.
Ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ undanþegin. Við ákvörðun um hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Um sé að ræða þjónustu heilbrigðisstéttar sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.
- Að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga eða hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.
Næringarráðgjafar eru heilbrigðisstétt samkvæmt reglugerð nr. 47 /1987, um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa, og er því fyrra skilyrðið uppfyllt. Hvað síðara skilyrðið varðar álítur ríkisskattstjóri að næringarráðgjöf geti talist vera sambærileg meðferð á líkama sjúklings til lækninga og hjúkrunar þar sem markmiðið með henni er heilbrigði þeirra sem ráðgjafarinnar njóta. Einnig er ráðgjöfin byggð á sérstakri þekkingu og menntun sem viðurkennd er af heilbrigðisráðuneyti.
Næringarráðgjöf, hvort sem hún beinist að einstaklingum eða hópum, telst því hluti af heilbrigðisþjónustu og er undanþegin skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Námskeið sem snúast um næringarráðgjöf til einstaklinga, þ.m.t. til starfsmanna fyrirtækja, falla einnig undir þetta ákvæði.
Fyrirlestrar til menntunar eða endurmenntunar heilbrigðisstétta eru undanþegnir skattskyldu skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en það ákvæði er túlkað þannig af ríkisskattstjóra að það nái m.a. til faglegrar menntunar og endurmenntunar í sambandi við atvinnu manna. Til þessa telst endurmenntunar námskeið fyrir fólk í heilbrigðisstétt og starfsfólk eldhúsa. Undanþáguákvæðið tekur bæði til umsjónarmanna námskeiða og einstakra fyrirlesara sem starfa sem „verktakar“ við kennslu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.