Dagsetning Tilvísun
11. desember 1996 772/96
Bókhaldsþjónusta fyrir lífeyrissjóði
Vísað er til bréfs yðar dags. 5. október 1996, sem fjallar um bókhaldsþjónustu sem verðbréfasjóðir veita lífeyrissjóðum.
Í bréfi yðar segir:
“Einhverjir verðbréfasjóðir hafa tekið að sér umsjón með lífeyrissjóðum sem m.a. felur í sér að þeir annast bókhald sjóðanna (færslu bókhalds, afstemmingar og stilla upp ársreikningi (fyrir endurskoðendur o.s.frv.)). Bókhaldsþáttur verksins verður að teljast allnokkur af þessari útseldu þjónustu og er hluti þeirrar þóknunar sem verðbréfasjóðurinn þiggur fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá einum þessara sjóða er ekki lagður virðisaukaskattur á þennan þátt þjónustunnar (frekar en aðra). Endurskoðendur sem veita sambærilega bókhaldsþjónustu verða að leggja virðisaukaskatt á sína þjónustu.”
Að lokum spyrjið þér, hvort framangreind “mismunun” eigi sér stoð í virðisauka-skattslögum.
Til svars erindinu skal tekið fram að störf við bókhald eru virðisaukaskattsskyld, þ.e. sá sem tekur að sér fyrir annan að sjá um bókhald, afstemmingar, uppgjör o.þ.h. þarf að innheimta virðisaukaskatt af verkkaupa og standa skil á honum í ríkissjóð, sbr. 2. mgr. 2.gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Starfsemi banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og lánastofnana er aftur á móti undanþegin virðisaukaskatti sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Undanþágan felur í sér öll eiginleg banka- og verðbréfaviðskipti þ.m.t. bókhald og annar rekstur stofnananna. Það þýðir ekki að verðbréfafyrirtæki geti selt öðrum bókhaldsþjónustu án þess að innheimta virðisaukaskatt. Það yrði gert í samkeppni við atvinnufyrirtæki á því sviði.
Verðbréfasjóðum ber því að innheimta virðisaukaskatt af allri seldri þjónustu sem ekki telst vera eiginleg þjónusta vegna verðbréfaviðskipta, enda sé hún ekki undanþegin á grundvelli annarra ákvæða virðisaukaskattslaga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir