Dagsetning Tilvísun
5. mars 1990 28/90
Frádráttur virðisaukaskatts vegna bifreiða.
Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli bifreiðaumboða sem flytja inn bifreiðar til endursölu á eftirfarandi reglum sem gilda um frádrátt virðisaukaskatts af bifreiðum, sbr. reglugerð nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts, með áorðnum breytingum:
1. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun, rekstri og leigu fólksbifreiða, þ.m.t. skutbifreiða (station) og jeppabifreiða, fyrir færri en níu menn, enda hafi aðili ekki með höndum sölu eða leigu þessara bifreiða. Það telst fólksbifreið í þessu sambandi þegar leyfð heildarþyngd bifreiðar er 3500 kg eða minna og hún fellur ekki undir skilgreiningu 2. töluliðar.
2. Bifreið með leyfðri heildarþyngd 3500 kg eða minna, sem aðallega er ætluð til vöruflutninga, telst vöruflutninga- eða sendiferðabifreið. Um frádrátt virðisaukaskatts vegna þessara bifreiða fer skv. 3. tölulið. Öll eftirtalin atriði þurfa að eiga við bifreið svo hún teljist aðallega ætluð til vöru-flutninga:
a. Skráð þyngd í fólksrými skal vera minni en helmingur af skráðri burðargetu bifreiðar. Miða skal við að hver maður vegi 75 kg.
b. Farmrými, opið (pallur) eða lokað, aftan við öftustu brún sætis eða milliþils skal vera a.m.k. 1700 mm. Sé það styttra skal það vera lengra en fólksrýmið mælt frá miðri framrúðu.
c. Í farmrými mega hvorki vera sæti, sætisfestingar né annar búnaður til farþegaflutninga. Sé bifreið breytt úr fólksbifreið í vöruflutninga- eða sendiferðabifreið skulu sæti í farmrými fjarlægð með varanlegum hætti, t.d. þannig að sætisfestingar séu einnig fjarlægðar.
3. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu vöruflutninga- og sendiferðabifreiða með leyfilegum heildarþunga undir þremur og hálfu tonni, nema bifreiðar þessarar séu eingöngu notaðar vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skattaðila. Í þessu felst t.d. að sé bifreið notuð að hluta til einkanota fæst virðisaukaskattur af kaupverði hennar ekki frádreginn að neinu leyti sem innskattur.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Jón Guðmundsson,