Dagsetning Tilvísun
13. desember 1996 774/96
Virðisaukaskattur – hvíldardvöl aldraðra
Vísað er til símtals við yður og bréfs yðar, dags. 10. júní 1996, þar sem spurst er fyrir um hvort innheimta beri virðisaukaskatt af hvíldardvöl aldraðra sem þér hyggist bjóða upp á.
Í bréfi yðar kemur fram að um er að ræða dvöl fyrir aldraða sem búa í skjóli ættingja og geta ekki verið einir ef ættingjar fara í frí eða ættingjar geta ekki sinnt þeim um stundarsakir af einhverjum öðrum ástæðum. Vistunin er ekki hugsuð til langs tíma í senn.
Áður en vikið er að fyrirspurn yðar skal tekið fram að um málefni aldraðra, þ.m.t. um starfsemi dvalarheimila aldraðra, gilda lög nr. 82/1989. Slík heimili eru undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri telur að umrædd hvíldardvöl sé ekki undanþegin virðisaukaskatti nema starfsemin uppfylli að einu og öllu sömu skilyrði og dvalarheimili aldraðra gera samkvæmt fyrrgreindum lögum.
Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra uppfyllir starfsemin ekki skilyrði laga nr. 82/1989. Það er því álit ríkisskattstjóra að hvíldardvöl sú sem þér hyggist bjóða upp á sé í eðli sínu gisting og skiptir ekki máli í þessu sambandi að sá markhópur sem þér hafið í huga sé aldraðir einstaklingar sem þér viljið þjóna á þann hátt sem honum hentar. Tekið skal fram að innheimta ber 14% virðisaukaskatt af sölu á gistingu, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir