Dagsetning Tilvísun
9. mars 1990 29/90
Virðisaukaskattsskylda stjórnmálaflokka
Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. feb. sl., þar sem spurt er hvort útgáfa blaða á vegum stjórnmálaflokks sé virðisaukaskattsskyld starfsemi. Jafnframt er spurt hvort sala stjórnmálaflokks á ýmsum smávörum, svo sem flokksmerkjum, lyklakippum, pennum, upptökurum og bolum, sé skattskyld til virðisaukaskatts. Loks er spurt um virðisaukaskatt af sölu happdrættismiða og kaffisölu o.þ.h.
I.
Til svars þeim þætti erindisins sem varðar útgáfustarfsemi skal tekið fram að greina verður á milli;
a) varanlegrar og reglulegrar útgáfustarfsemi stjórnmálaflokks, t.d. útgáfu landsmálablaða, og
b) tilfallandi blaðaútgáfu sem t.d. er þáttur í kosningastarfi.
Um a:
Útgáfustarfsemi sem fellur í þennan flokk er skattskyld til virðisaukaskatts (skráningarskyld skv. 5. gr. laga nr. 50/1988) ef hún verður talin atvinnustarfsemi í skilningi laga um virðisaukaskatt. Við mat á því hvort útgáfa telst rekin í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Jafnframt verður að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, t.d. hvort um sé að ræða sambærilega útgáfustarfsemi og fer fram hjá atvinnufyrirtækjum.
Útgáfa telst ekki rekin í atvinnuskyni ef samtals auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en prentkostnaður og annar kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar. Gefi aðili út fleiri en eitt tímarit o.s.frv er miðað við heildarafkomu hans af starfseminni.
Útgáfa kann að vera rekin tímabundið með tapi, t.d. fyrst eftir stofnun eða vegna sérstakra aðstæðna, án þess að það hafi í för með sér undanþágu frá skráningarskyldu.
Útgáfustarfsemi er ekki skráningarskyld ef samtals tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þar á meðal tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1990).
Um b:
Útgáfustarfsemi stjórnmálaflokks sem fellur í þennan flokk, þ.e. er ekki varanleg og regluleg yfir lengra tímabil, telst ekki atvinnustarfsemi í skilningi laga um virðisaukaskatt og því undanþegin skráningarskyldu – óháð afkomu.
II.
Sala stjórnmálaflokks á flokksmerkjum, lyklakippum og slíkum smávörum hefur ekki skráningarskyldu í för með sér ef salan fer eingöngu fram innan flokksins, þ.e. á skrifstofu flokksins, á flokkssamkomum o.s.frv. Rekstur almennrar verslunar með þessar eða aðrar vörur er hins vegar skráningarskyld starfsemi. Sama er að segja um kaffisöluna. Þannig er kaffisala til almennings skráningarskyld starfsemi.
Happdrætti og getraunastarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.