Dagsetning                       Tilvísun
5. mars 1997                            787/97

 

Fyrirbyggjandi heilsuvernd – sjúkraþjálfun

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. janúar, sem sent var skattstjóranum í Reykjavík og framsent ríkisskattstjóra þann 13. janúar 1997, þar sem spurst er fyrir um hvort yður beri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af fyrirhuguðum störfum yðar.

Í bréfi yðar kemur fram að þér eruð löggiltur sjúkraþjálfari með vinnuvistfræði sem sérgrein. Þér munið starfa að fyrirbyggjandi heilsuvernd í fyrirtækjum. Starfið felst einkum í fyrirlestrum, kennslu, námskeiðahaldi, líkamsþjálfun og tilsögn er varðar heilnæmt vinnuumhverfi.

Ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er “önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta” undanþegin. Við ákvörðun um hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Um sé að ræða þjónustu heilbrigðisstéttar sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.
  2. Að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga eða hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Sjúkraþjálfarar eru heilbrigðisstétt skv. lögum nr. 24/1985 og er því fyrra skilyrðið uppfyllt. Hvað síðara skilyrðið varðar er það mat ríkisskattstjóra að þau störf er þér hyggist stunda, felist í fyrirbyggjandi heilsuvernd og falli því undir síðara skilyrðið.

Starfsemi yðar sem lýst er fyrr í þessu bréfi, hvort sem hún beinist að einstaklingum eða hópum, telst því til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu og er undanþegin virðisauka- skatti samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir