Dagsetning                       Tilvísun
6. mars 1997                            788/97

 

Skráning lögaðila í virðisaukaskatti – atvinnuskyn.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. febrúar 1997, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort tiltekið einkahlutafélag sé skráningarskylt samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í meðfylgjandi gögnum kemur fram að eignaraðilar að einkahlutafélaginu eru annars vegar bæjarfélag (91,67%) og hins vegar leikfélag bæjarfélagsins (8,33%). Jafnframt kemur fram að gert er ráð fyrir að meirihluti tekna hins nýstofnaða félags stafi af leigutekjum vegna leigu á fasteign félagsins til bæjarsjóðsins sem er aðaleigandi þess. Auk þess kemur fram að félagið ráðgerir að endurbæta húsnæðið fyrir um 20-30 milljónir áður en útleiga hefst en sótt er um frjálsa skráningu vegna hennar. Í bréfi dags. 15. febrúar sl. til skattstjóra kemur fram m.a.:

“Fullyrða má að í venjubundnum rekstri verði að öllu jöfnu meiri útskattur en innskattur, a.m.k. eftir endurbætur og lagfæringar, en ekki er búist við hagnaði af starfseminni og mun Bæjarsjóður brúa bilið með framlagi á ári hverju. (auðk. hér)”

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt eru allir þeir skattskyldir sem selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inn af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi. Kemur þessi meginregla fram í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þess er getið í athugasemdum með frumvarpi til virðisaukaskattslaga að við mat á því hvort aðili hafi með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.e. hvort um er að ræða skattskyldu skv. 1. tölul., fari eftir svipuðum sjónarmiðum og gilda um þessi atriði í tekjuskattslögum.

Með vísan til þess sem kemur fram í bréfi til skattstjóra er vafalaust að félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og telst það því ekki hafa með höndum atvinnustarfsemi í skilningi tekju- og virðisaukaskattslaga. Af framansögðu leiðir að félagið getur ekki fengið frjálsa skráningu skv. 6. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.

Til viðbótar þessu virðist félagið vera stofnað í þeim tilgangi að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af kostnaði við endurbætur húsnæðisins. Samkvæmt þessu virðist félagið vera stofnsett til málamynda enda meginbreyting á starfseminni fólgin í breyttu rekstrarformi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það álit ríkisskattstjóra að ekki beri að skrá umrætt félag á virðisaukaskattsskrá á þeim forsendum sem félagið hefur lagt fram. Þó skal tekið fram að sala félagsins til annarra í samkeppni við atvinnufyrirtæki er ávallt skattskyld til virðisaukaskatts enda sé hún í hagnaðarskyni, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Hvað varðar innskattsfrádrátt slíkra aðila þá er hann takmarkaður við þau aðföng sem eingöngu varða sölu á skattskyldum vörum eða þjónustu, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

Friðgeir Sigurðsson