Dagsetning                       Tilvísun
7. mars 1997                            789/97

 

Virðisaukaskattur – fjarskiptaþjónusta, línuleiga milli landa

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. nóvember sl. varðandi virðisaukaskatt af afnotagjaldi fyrir símalínu milli Íslands og Kanada. Um er að ræða þjónustu sem veitt er A, I, en að sögn yðar hefur virðisaukaskatti verið skilað af henni með vísan til bréfs ríkisskattstjóra frá 11. maí 1992.

Í bréfi yðar segir: “…verður ekki fram hjá því litið að umrædd línuleiga er þjónusta sem seld er erlendum aðila og er hún sannanlega “notuð” erlendis. Að mati fyrirtækisins er hér um að ræða sölu á þjónustu úr landi sem samkvæmt 12. gr. laganna um virðisaukaskatt ber ekki að telja með skattskyldri veltu”.

Til svars á bréfinu þá nær undanþága skv. 1. tölul. 12. gr. virðisaukaskattslaga til þeirrar vinnu og þjónustu sem veitt er erlendis. Í þessu sambandi skiptir því ekki máli hvar þjónustan er nýtt. Í greinargerð með virðisaukaskattsfrumvarpinu á sínum tíma var tilvitnað ákvæði nánar skýrt þannig að átt væri við þjónustu sem “veitt er og seld erlendis”. Við túlkun ákvæðisins er því litið til þess hvers eðlis þjónustan er, hvar hún er afhent og með hvaða hætti. Fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist í einu landi og ljúki í öðru. Þess vegna er eðlilegt að líta fremur til þess hvar starfsstöð seljanda er til ákvörðunar um afhendingarstað.

Með hliðsjón af framansögðu og fyrirliggjandi upplýsingum er ljóst að umrædd þjónusta, þ.e. leiga á símalínu á milli landa, telst vera veitt hér á landi, enda seld frá starfsstöð hér á landi. Með vísan til framanritaðs teljast tekjur af umræddri línuleigu til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. laganna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson