Dagsetning                       Tilvísun
16. mars 1990                              30/90

 

Virðisaukaskattur af tímaritum.

Að gefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram um virðisaukaskatt af tímaritum:

A. Um undanþágu 9. tölul. l. mgr. 12. gr. vskl.

  1. Sala

Sala tímarita, dagblaða og landsmálablaða er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988.

Með „sala“ er bæði átt við sölu í smásölu til endanlegs neytanda, jafnt í áskrift sem lausasölu, og heildsölu, þ.e. sölu frá útgefanda til smásala.

  1. Tímarit

„Tímarit“ í skilningi ákvæðisins er hvers konar útgáfa rita, að jafnaði með efni eftir fleiri en einn höfund, önnur en            útgáfa dagblaða og landsmálablaða, sem uppfyllir eftirtalin skilyrði og fellur ekki undir upptalningu í lið 3:

a) Kemur út reglulega og a.m.k. tvisvar sinnum á ári.

Ríkisskattstjóri getur þó í einstökum tilvikum veitt frávik frá þessu skilyrði.

b}    Útgáfan er liður í ótímabundinni röð, þ.e. gert er ráð fyrir útgáfu um fyrirsjáanlega framtíð.

c) Einstök hefti bera sama heiti og eru númeruð.

d) Útgáfan er seld á fyrirfram ákveðnu verði eða dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds.

  1. Rit sem ekki eru tímarit:

Greina verður á milli tímarita og ritraða. Ritröð er safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum með sameiginlegum heildartitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild. Dæmi um íslenskar ritraðir eru Safn til sögu Íslands, Safn Fræðafélagsins og Rit Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.

Þá má taka eftirfarandi til dæmis um prentvarning sem ekki telst tímarit:

  1. Dagatöl og aðrar reglulegar útgáfur sem hafa að geyma dagatöl.
  2. Reikningseyðublöð, reikningshefti o.fl.
  3. Leikskrár, sýningaskrár o.fl.
  4. Ferðaáætlanir og vegakort.
  5. Skrár yfir fasteignir, vörur, rekstrarfjármuni, sýningarhluti, vörubirgðir og annað lausafé.
  6. Vinningaskrár í happdrætti.
  7. Bæjarsímaskrár, heimilisfangaskrár og fyrirtækjaskrár.
  8. Götuskrár og skrár yfir þjónustustaði.
  9. Verðskrár,gjaldskrár,launaskrár,áætlanir ferðaskrifstofa og flutningsfyrirtækja, gjaldmiðilstöflur o.fl.
  10. Skuldara- og kröfuhafalistar.
  1. Dagblöð og landsmálablöð

Með dagblöðum er átt við blöð sem koma út með reglubundnum hætti, a.m.k. sex sinnum í viku, og hafa að geyma almennar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi. Með landsmála- og héraðsfréttablöðum er átt við blöð sem að formi til eru svipuð dagblöðum og koma út a.m.k. einu sinni í mánuði.

B. Skráningarskylda

  1. Almennt

Útgáfa tímarita, dagblaða og landsmálablaða í atvinnuskyni er skráningarskyld starfsemi. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef samtals tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þar á meðal tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1990).

Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri.

Útgáfufyrirtæki telst ekki rekið í atvinnuskyni ef samtals auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en prentkostnaður og annar kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar. Gefi aðili út fleiri en eitt tímarit o.s.frv. er miðað við heildarafkomu fyrirtækisins.

Þótt útgáfan sé rekin tímabundið með tapi, t.d. fyrst eftir stofnun útgáfufyrirtækis eða vegna sérstakra aðstæðna, hefur það ekki í för með sér undanþágu frá skráningarskyldu.

  1. Sérstaklega um útgáfustarfsemi félagasamtaka

Útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem íþróttafélaga, nemendafélaga og stjórnmálaflokka, má skipta í tvennt:

a) Sé útgáfa blaðs eða tímarits varanleg og regluleg yfir lengra tímabil fellur hún undir reglurnar í B.l. Það fer þá eftir því hvort hagnaður er af útgáfunni hvort félaginu ber að skrá sig vegna útgáfunar. Jafnframt verður að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, t.d. hvort um sé að ræða sambærilega útgáfustarfsemi og fer fram hjá atvinnufyrirtækjum.

b) Tilfallandi útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem afmælisrit, blaðsútgáfa stjórnmálaflokka fyrir kosningar og skólablöð sem ekki falla undir a-lið getur ekki talist í atvinnuskyni í skilningi laga um virðisaukaskatt. Slík útgáfa er því undanþegin skráningarskyldu – óháð afkomu.

C. Meðferð virðisaukaskatts

  1. Skráningarskyld útgáfa

Útgefanda ber að innheimta virðisaukaskatt af auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem teljast til skattskyldrar veltu skv. almennum reglum laganna. Tekjur vegna sölu eru undanþegnar skattskyldri veltu, sbr. A hér að framan. Virðisaukaskattur af aðföngum til útgáfunnar kemur til frádráttar sem innskattur eftir almennum reglum.

  1. Undanþegin skráningarskyldu

Sé útgáfan undanþegin skráningarskyldu innheimtir útgefandi hvorki virðisaukaskatt af auglýsingatekjum né sölutekjum af ritinu. Hann hefur engan innskattsfrádrátt vegna útgáfunnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.