Dagsetning                       Tilvísun
2. apríl 1997                            793/97

 

Vísað er til bréfs yðar dag. 24. nóvember 1994 sem geymir fyrirspurnir um hvernig tekjuskráningu vegna gjafakorta skuli hagað.

I. Almennt

Sala á gjafkorti felur í sér innborgun fyrir afhendingu vöru eða þjónustu. Innborganir til skattaðila vegna skattskyldra vara eða þjónustu teljast til skattskyldrar veltu þegar þær eru mótteknar, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Því skal skattaðili standa skil á virðisaukaskatti af innborgunum á gjalddaga þess uppgjörstímabils sem innborgun er móttekin á.

Þegar úttekt hjá skattaðila á vöru eða þjónustu á grundvelli gjafakorts er valkvæð þannig að ekki er ljóst undir hvaða skatthlutfall væntanleg úttekt fellur skal miða skatthlutfall við 24,5% í samræmi við grunnreglur laga nr. 50/1988.

II. Tekjuskráning

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, skal móttakandi innborgunar gefa út kvittun til greiðanda í samræmi við ákvæði 1. mgr. greinarinnar, um sölureikninga, eftir því sem við á. Nánari ákvæði um þetta eru í 7. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Við sölu gjafakorts skal seljandi gefa út kvittun samkvæmt nánari ákvæðum 1.-2. mgr. tilvitnaðrar 7.gr. Kvittanir skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði;

  • fyrirfram tölusetning í samfelldri töluröð, en tölusetningin skal þó vera aðgreind frá tölusetningu sölureikninga,
  • fyrirfram áprentaðar upplýsingar um nafn, kennitölu og skráningarnúmer seljanda,
  • tilgreining útgáfudags,
  • tilgreining nafns og kennitölu kaupanda,
  • lýsing á hinu selda (innborgun vegna gjafakorts til handa XXX til úttektar á XXX),
  • tilgreining heildarfjárhæðar og virðisaukaskatts,
  • þrírit,
  • aðgreining skattskyldrar sölu eftir skatthlutföllum, þegar ljóst er undir hvaða skattþrep væntanleg afhending fellur.

Heimilt er að gefa út sölureikning í stað kvittunar, sbr. 2. ml. 1. mgr. umræddrar 7.gr.

Við afhendingu vöru eða þjónustu samkvæmt gjafakorti skal seljandi gefa út sölureikning samkvæmt 3. mgr. tilvitnaðrar 7. gr. Þegar sölureikningur er gefinn út skal tilgreina á honum mótteknar skattskyldar innborganir vegna viðkomandi sölu. Koma skal fram fjárhæð, dagsetning og númer kvittunar eða sölureiknings skv. 1. mgr. Hafi nægileg lýsing á hinu selda ekki komið fram á kvittun skal hún koma fram á sölureikningi. Sölureikning skal stíla á og senda kaupanda gjafakorts, ekki gjafþega.

Afritum kvittana og sölureikninga skal haldið til haga eins og öðrum bókhaldsgögnum seljanda.

Ef seljandi byggir tekjuskráningu á skráningu í sjóðvél skal hann jafnframt skráningu í sjóðvél gefa út kvittun við innborgun og sölureikning við afhendingu í samræmi við ákvæði tilvitnaðrar 7. gr. Með hliðsjón af 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993 telst þó óskylt að tölusetja reikningseyðublöð fyrirfram og nægilegt að kvittanir og reikningseyðublöð séu í tvíriti. Seljandi skal varðveita samrit í réttri útgáfuröð.

III. Bókhald

Um bókhald virðisaukaskattsskyldra aðila gilda ákvæði III.-VI. kafla reglugerðar nr. 50/1993; vegna innborgana sjá einkum 18. gr. (sameiginlegar reglur), 24.-25. gr. (tvíhliða bókhald) og 29. gr. (einhliða bókhald).

IV. Leiðréttingar

Eins og að framan er frá greint skal miða skatthlutfall við 24,5% þegar úttekt vöru eða þjónustu á grundvelli gjafakorts er valkvæð þannig að óljóst er um endanlegt skattþrep. Reynist skattur of hár við úttekt er seljanda heimilt að leiðrétta hann með útgáfu kreditreiknings sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, ef leiðréttingu verður komið við gagnvart kaupanda, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Þar sem framangreind atriði verða ljós við útgáfu sölureiknings samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 50/1993 telur ríkisskattstjóri að heimilt sé að leiðrétta á þeim reikningi, enda komi bakfærslan greinilega fram.

V. Breyting á reglugerð nr. 50/1993

Reglugerð nr. 136/1997 breytir reglugerð nr. 50/1993 frá og með 1. maí n.k. Þar eru teknar inn í reglugerð gildandi reglur um gjafakort. Þær breytingar verða þó á að ekki þarf að fyrirfram áprenta nafn, kennitölu og skráningarnúmer seljanda á kvittanir og reikningseyðublöð. Jafnframt telst móttekið gjafakort á meðal bókhaldsskjala seljanda.

Hjálagt fylgja tilvitnaðar reglugerðir, auk orðsendingar v/virðisaukaskatts nr. 3/1997.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara bréfi yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ingibjörg Ingvadóttir