Dagsetning Tilvísun
2. apríl 1997 794/97
Umsókn um skráningu vegna málmleitar
Vísað er til bréfs yðar dags. 18. mars sl. þar sem óskað er umsagnar embættisins um umsókn fyrirtækisins M um skráningu á virðisaukaskattsskrá.
Ríkisskattstjóri telur ljóst að fyrirtækið M. sem stefnir að vinnslu gulls úr jörðu á Íslandi getur fengið skráningu á grundvelli þeirra reglna sem gilt hafa frá 1. janúar 1997, sbr. reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Fyrst skal tekið fram að fyrirtækið getur ekki fallið undir reglur um “almenna skráningu” skv. 2. gr. reglugerðarinnar þar sem það hefur engar tekjur á þessu stigi starfseminnar. Það telst heldur ekki uppfylla skilyrði c. liðar 4. gr. um að tekjur af starfseminni séu fyrirsjáanlegar, enda ennþá á tilraunastigi, sbr. meðsenda matsskýrslu frá desember 1996.
Hins vegar getur fyrirtækið fengið skráningu skv. 6. gr. reglugerðarinnar, þ.e. á grundvelli tryggingar í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka. Tilgangur þessarar tryggingar er að gæta hagsmuna ríkissjóðs í þeim tilvikum þar sem vafi þykir geta leikið á um að tekjuöflun og/eða atvinnuskyn starfseminnar. Í 9. gr. reglugerðarinnar koma fram þau tilvik sem geta leitt til þess að gengið verði að tryggingunni en í 12. gr. hennar kemur fram hvenær trygging fellur úr gildi.
Trygging skal á hverjum tíma nægja til endurheimtu á þeim virðisaukaskatti sem krafist er endurgreiðslu á. Stefni í það að heildarendurgreiðslur fari fram úr þeirri tryggingu sem sett hefur verið verður aðili að leggja fram viðbótartryggingu. Þegar metið er hvort fyrirliggjandi trygging er fullnægjandi verða samanlagðar endurgreiðslufjárhæðir framreiknaðar með byggingarvísitölu bornar saman við verðbætta tryggingarfjárhæðina.
Ríkisskattstjóri vill taka fram að skráning getur verið afturvirk ef uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Að mati embættisins gildir einu þó upphafsdagur sé fyrir gildistöku reglugerðarinnar, enda sé trygging sett fyrir öllum virðisaukaskatti frá þeim degi sem skattstjóri skráir sem upphafsdag.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Jón H. Steingrímsson.